Kveðja frá fráfarandi bæjarstjóra

Fréttir

Það hefur verið mikill heiður að fá að sinna þessu fjölbreytta og gefandi starfi í þessi fjögur ár og er ég þakklátur fyrir að hafa  fengið það tækifæri.

Kæru vinir og samstarfsfólk.

Um helgina rennur út samningur minn við Hafnarfjarðarkaupstað um starf bæjarstjóra. Það hefur verið mikill heiður að fá að sinna þessu fjölbreytta og gefandi starfi í þessi fjögur ár og er ég þakklátur fyrir að hafa  fengið það tækifæri. Ég held að það hafi gengið nokkuð vel hjá okkur á þessu kjörtímabili og geng ég glaður og sáttur frá borði. Ég hef fengið tækifæri til þess að koma mörgum verkefnum áfram sem munu vonandi bæta samfélagið til framtíðar.  Þó eru tvö mál sem ég hefði viljað að væru komin lengra. Annars vegar þær umbætur sem við höfum farið af stað með í skólamálum og þá sérstaklega snemmtæk íhlutun og samþætting fjölskylduþjónustu og fræðslu- og frístundaþjónustu. Hins vegar búsetumál fatlaðs fólks og íbúarekin leigufélög sem við erum komin af stað með og vona ég svo sannarlega að orðatiltækið muni eiga hér við að hálfnað er verk þá hafið er.  Ég hef fengið tækifæri til að kynnast frábæru starfsfólki sveitarfélagsins og er mannauður Hafnarfjarðarkaupstaður mikill, sem mikilvægt er að hlúð sé vel að. Það hefur verið bæði gefandi og ánægjulegt að starfa með og kynnast öllu því frábæra fólki sem starfar hjá sveitarfélaginu og því fólki sem starfað hefur í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum sveitarfélagsins. Ég vil þakka fyrir öll þau samtöl sem ég hef átt við starfsmenn sem hafa reynst mér gefandi, gagnleg og hjálpað við stjórn bæjarins. Og ekki hefur síst verið gefandi og ánægjulegt að eiga samstarf og samtal við bæjarbúa sem ég er afar þakklátur fyrir.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum starfsmönnum sveitarfélagsins, sveitarstjórnarfólki og bæjarbúum fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf sl. fjögur ár.  Jafnframt vil ég óska nýrri bæjarstjórn farsældar í störfum sínum á því kjörtímabili sem nú er að hefjast og óska Hafnarfjarðarkaupstað, starfsmönnum sveitarfélagins og bæjarbúum alls hins besta um ókomin ár. 

Ábendingagátt