Kveikt á tré sorgar í Hellisgerði

Fréttir

Síðastliðinn sunnudag stóð Sorgarmiðstöð í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ fyrir hugleiðingu og jólagöngu sem endaði með tendrun ljósa á sérstöku Sorgartré í Hellisgerði til minningar um látna ástvini. Með tilkomu trésins er hægt að bjóða upp á hugljúfan og fallegan stað í hjarta Hafnarfjarðar sem hefur að geyma birtu og hlýju til syrgjenda. Hellisgerði er skrúðgarður Hafnfirðinga og fallegur og aðgengilegur á öllum árstímum.

Síðastliðinn sunnudag stóð Sorgarmiðstöð í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ fyrir hugleiðingu og jólagöngu sem endaði með tendrun ljósa á sérstöku Sorgartré í Hellisgerði til minningar um látna ástvini. Með tilkomu trésins er hægt að bjóða upp á hugljúfan og fallegan stað í hjarta Hafnarfjarðar sem hefur að geyma birtu og hlýju til syrgjenda. Hellisgerði er skrúðgarður Hafnfirðinga og fallegur og aðgengilegur á öllum árstímum.

Kærleikur og hlýja allt árið um kring

Hugleiðingin og jólagangan hófst í húsakynnum Sorgarmiðstöðvar í Lífsgæðasetri St. Jó þar sem miðstöðin hefur komið sér afar hlýlega og fallega fyrir. Gísli Álfgeirsson stjórnarmeðlimur í Sorgarmiðstöð flutti þar stutta hugleiðingu um tyllidaga og hátíðir áður en lagt var af stað í göngu í  gegnum miðbæ Hafnarfjarðar að Hellisgerði. Í Hellisgerði hélt Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri fallega tölu, kórinn Hljómfélagið flutti yndislega og ljúfa tóna og lauk formlegri dagskrá með tendrun ljósa á Sorgartrénu. Boðið var upp á heitt kakó, piparkökur og notalega stund. Fjöldi fólks tók þátt í viðburðinum og naut þess að finna kærleik og hlýju í aðdraganda jóla ❤️

Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni

Sorgarmiðstöð sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda. Sorgarúrvinnsla miðar að bættri lýðheilsu með því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi. Sorgarmiðstöðin er samstarfsverkefni grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu. Þau eru Ný dögun, Ljónshjarta og Gleym mér ei með það fyrir augum að veita heildstætt úrræði á einum stað og þannig enn betri þjónustu til syrgjandi fólks á Íslandi.

Ábendingagátt