Kvennakór og íslensk hollusta í Jólaþorpinu

Fréttir Jólabærinn

Jólaþorpið er í hjarta Hafnarfjarðar. Þar koma margir saman hverja helgi og margt fólk rekur þar jólahús. Þar verður Kvennakór Hafnarfjarðar sem og Íslensk hollusta.

Fjársjóðir í Jólaþorpinu

Þari, jurtir, ber, salt og hinar ýmsu tengdar vörur prýða nú vörulínu Íslenskrar hollustu. Þetta fjölskyldufyrirtæki sem Eyjólfur Friðgeirsson og Bergþóra Einarsdóttir stofnuðu fyrir átján árum og hafa fengið brautryðjendaverðlaun Samtaka iðnaðarins fyrir. Íslensk hollusta verður í einu jólahúsanna í Jólaþorpinu á Thorsplani – rétt eins og síðustu ár. „Já, þetta er mjög gaman. Mjög gefandi og við elskum að hitta fólk í Jólaþorpinu enda erum við stolt hafnfirskt fyrirtæki og höfum gaman að sýna fólki vörurnar,“ segir Eyjólfur.

Eyjólfur Friðgeirsson og Bergþóra Einarsdóttir stofnuðu Íslenska hollustu og heldur dóttir þeirra Ragnheiður Axel nú um þræðina.

 

Eyjólfur verður ekki einmana í Jólaþorpinu. Þaðan berst söngur úr næsta húsi. „Kvennakór Hafnarfjarðar verður þrjátíu ára og við erum að fara til útlanda,“ segir Sara Gríms kórstjóri. Kórinn verður í einu jólahúsanna í Jólaþorpinu á Thorsplani helgina 13-15. desember. Safna á fyrir ferð til Cambridge í Bretlandi.

„Þetta verður mikið ævintýri,“ segir Sara sem hugsar til Cambridge á meðan Sigríður Þyrí Skúladóttir, kynningarfulltrúi kórsins, notar sömu orð yfir Jólaþorpið. „Já, ævintýrahelgi,“ segir hún. „Við hlökkum til þess að hitta allt fólkið í Jólaþorpinu. Þetta verður skemmtilegt.“

Kvennakór Hafnarfjarðar æfir á mánudögum sem gerir daginn betri og skemmtilegri. Kórinn verður svo með jólatónleikana sína í Víðistaðakirkju þann 5. desember.

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Nálgast má jólablaðið á öllum okkar söfnum og sundlaugum. Líka í þjónustuveri.
Ábendingagátt