Kynningarfundur hjá Frísk í FH fyrir 60+

Fréttir

Frísk í FH, stutt af heilsubænum Hafnarfirði, stendur að kynningarfundi um þetta frábæra íþróttastarf fyrir 60+ á morgun. Fundurinn er klukkan 13 í veislusalnum Sjónarhóli í Kaplakrika á morgun, miðvikudaginn 14. ágúst.

Frísk fram eftir aldri!

Frísk í FH, stutt af heilsubænum Hafnarfirði, stendur að kynningarfundi um þetta frábæra íþróttastarf fyrir 60+ á morgun. Fundurinn er klukkan 13 í veislusalnum Sjónarhóli í Kaplakrika.

Eva Friðgeirsdóttir, verkefnastjóri Frísk í FH, segir starfið hafa eflst síðustu ár. Verkefnið sé tvíþætt. „Hugmyndin er að opna íþróttafélagið FH fyrir fjölbreyttari hópi, nýta húsnæðið betur þegar notkunina er sem minnst og svo einnig að bjóða skipulagða þjónustu og hreyfingu fyrir 60+,“ segir hún.

„Þetta er hópþjálfun undir handleiðslu fagmenntaðs þjálfara. Við byggjum alla hreyfinguna á kenningum um hvað er æskilegt þessum aldurshóp.“

Náum árangri saman

Eva segir þekkt að þekki fólkið hópinn sem það stundi hreyfingu með endist það betur. „Þetta er því sami hópurinn, sama fólkið, sami þjálfarinn sem hittist hverju sinni. Það ýtir svo vel undir félagslega tengingu,“ segir hún og að fólk mæti oft fyrst í tíma til að bæta heilsuna, hreyfa sig, en svo þróist það í þá átt að mæta til að missa ekki af félagsskapnum.

„Hreyfing er okkur nauðsynleg en margir ná ekki að halda þeim lífsstíl, því þeim þykir hreyfing ekki nógu skemmtileg. En þegar fólk er komið í hóp, er önn eftir önn undir handleiðslu sama þjálfara, þá verður þetta skemmtilegt,“ leggur hún áherslu á. Einnig að á 12 vikna vornámskeiðinu hafi náðst mikill árangur.

  • Þol jókst um 14% að meðaltali á tímabilinu.
  • Styrkur í efri líkama jókst um 35% á tímabilinu.
  • Styrkur í neðri líkama jókst um 36% á tímabilinu.

Aftur hluti af íþróttaandanum

Eva segir akkur í að fá 60+ í FH. „Við viljum að fólk verði þátttakendur í félagsstarfinu. Einstaklingar sem hafa verið í FH í mörg ár; sem iðkenndur, foreldrar, stuðningsmenn, verða nú aftur meðlimir íþróttafélagsins,“ segir hún. Fleiri virkir félagsmenn séu auður fyrir íþróttafélögin.

„Meira líf, það er af hinu góða,“ segir hún. En hvenær byrjar svo hópastarfið?

„Við byrjum í næstu viku, 19. ágúst. Kynningarfundurinn er á morgun. Þegar fínasta skráning og núna viljum við bæta við hópana. Við setjum hámark 20 í hóp og reikningum með 75% mætingu. Það gera um fimmtán í hverjum hópi sem er frábær fjöldi til að kynnast og tengjast öðrum. Hér er gott fólk. Þetta eru skemmtileg hópar,“ segir Eva.

  • Hvar? Sjónarhóll, veislusalur FH í Kaplakrika
  • Hvenær? 14. ágúst kl. 13

Ábendingagátt