Lægri inntökualdur á leikskóla

Fréttir

Frá og með hausti 2015 lækkaði inntökualdur hafnfirskra barna í leikskóla úr 20 mánaða í 18 mánaða. Að auki var  öllum börnum fæddum í mars 2014 úthlutað plássi frá og með 1. febrúar 2016.

Frá og með hausti 2015, nánar tiltekið í
ágúst, lækkaði inntökualdur hafnfirskra barna í leikskóla þannig að öll börn
fædd í janúar og febrúar 2014 fengu leikskólapláss. Öllum börnum fæddum í mars
2014 var síðan úthlutað plássi frá og með 1. febrúar 2016. Í fyrsta skipti nú í
ár eru börn tekin inn tvisvar yfir árið.

Með
fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir
árið 2016 var ákveðið  að færa
inntökualdur barna á leikskóla niður um einn mánuð til viðbótar þannig að 1. ágúst
n.k. fá öll börn fædd í janúar, febrúar og mars 2015 inni á leikskólum bæjarins.  Þann 1. febrúar 2017 er svo gert ráð fyrir að
taka inn börn fædd í apríl 2015. Hafnarfjarðarbær niðurgreiðir í dag daggæslugjöld
barna hjá dagforeldrum og að auki geta foreldrar sótt um niðurgreiðslu að
fæðingarorlofi loknu vegna gæslu hjá öðrum en dagforeldrum að uppfylltum settum
skilyrðum. Þegar börn hafa náð 18 mánaða aldri hækka niðurgreiðslur til
dagforeldra sem nemur 40% til að lækka hlut foreldra sem bíða eftir
leikskólaplássi.  Greiðslur falla niður
um leið og barn hefur fengið boð um leikskólavist.

Dagforeldrar sem
veita börnum daggæslu eru sjálfstætt starfandi. Fræðslu- og frístundaþjónusta
Hafnarfjarðarbæjar annast leyfisveitingar, veitir dagforeldrum ráðgjöf og sér
um eftirlit með starfseminni samkvæmt reglugerð félagsmálaráðuneytis frá 2005.
Val á dagforeldri er á ábyrgð foreldra og dagforeldrum í sjálfsvald sett hvaða
form og forgang þeir setja varðandi inntöku hjá sér. Hafnarfjarðarbær reynir að
vera leiðbeinandi og ráðgefandi í þessum efnum en endanleg ákvörðun liggur hjá
dagforeldrinu sjálfu. Stefnt er að auknu samstarfi við dagforeldra um skráningu
barna á biðlista. Námskeið sem veita réttindi til að gerast dagforeldri eru að
jafnaði haldin tvisvar ári í Námsflokkum Hafnarfjarðar – miðstöð símenntunar og
styrkir bærinn þá sem ljúka þeim námskeiðum og taka til starfa í Hafnarfirði um
námskeiðsgjöldin.

Ábendingagátt