Lækkun aldursviðmiða vegna styrks og líkamsræktarkorta

Fréttir

Hafnarfjarðarbær breytti nýverið reglum um frístundastyrk þannig að börn 14 ára og eldri geta nú notað styrkinn til að greiða niður líkamsræktarkort eða sambærilegt aðgangskort sem tengist íþróttum og hreyfingu og gilda í 3 mánuði eða lengur. Heimildin gildir frá áramótum þess árs sem börnin verða 14 ára.

Lækkun aldursviðmiða í nýtingu frístundastyrks vegna líkamsræktarkorta

Hafnarfjarðarbær breytti nýverið reglum um frístundastyrk þannig að börn 14 ára og eldri geta nú notað styrkinn til að greiða niður líkamsræktarkort eða sambærilegt aðgangskort sem tengist íþróttum og hreyfingu og gilda í 3 mánuði eða lengur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um fræðslu til iðkenda og utanumhald. Áður var aldursviðmiðið 16 ára og eldri. Við rýni gagna um nýtingu eða nýtingarhlutfall á frístundastyrk kemur í ljós mikil fækkun iðkenda við 14 ára aldurinn. Hreyfing og heilbrigt líferni hefur mikið forvarnargildi og mikilvægt að finna leiðir til að ýta undir áframhaldandi hreyfingu.

Aukið val og möguleikar til virkni fyrir 14 ára og eldri 

Markmiðið með breytingunni er að hvetja börn og ungmenni 14 ára og eldri til áframhaldandi virkrar hreyfingar og félagslegra tengsla á mikilvægum og mótandi unglingsárum og til nýtingar á frístundastyrk sem gildir til 18 ára aldurs. Það er sýnt og sannað að hreyfing og virkni hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og líðan barna og ungmenna. Hafnarfjarðarbær vill með ákvörðuninni auka líkur á áframhaldandi hreyfingu og virkni 14 ára og eldri.  Það er svo á ábyrgð foreldra og forsjáraðila að finna með barninu sínu hentuga hreyfingu eða tómstund, hvort sem er í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi eða í líkamsræktarstöð.

Heimildin gildir frá áramótum þess árs sem börnin verða 14 ára.

Ábendingagátt