Lækur athvarf fær listasmiðju

Fréttir

Sett verður upp listasmiðja í um 70 fermetra rými í Læk, sem athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Forstöðumaður Lækjar, segir mikla tilhlökkun að geta boðið enn öflugra starf.

Öflugt starf hjá athvarfinu Læk

Sett verður upp listasmiðja í um 70 fermetra rými í Læk, sem athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Tvöfaldur bílskúr húsnæðisins, sem áður nýttist sem geymsla fyrir aðra starfsemi, verður nú einnig hluti Lækjar. Brynja Rut Vilhjálmsdóttir, forstöðumaður Lækjar, segir mikla tilhlökkun að geta boðið enn öflugra starf.

Pönnukökuilmur lagði yfir húsakynni athvarfsins Lækjarins við Staðarberg 6 þegar bæjarstjóri leit í heimsókn fyrr á föstudag. Létt var yfir hópnum, enda nýbúið að snæða þorramatinn. Bóndadagur og karlmennirnir skörtuðu bindi.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir það segja sitt þegar pönnukökuilmurinn mæti manni í dyrunum. „Stemningin er eins og í góðu og notalegu heimboði. Þessi hlýleiki er ekki tilviljun, hann er hluti af því sem gerir Læk að svona góðum stað. Hér upplifa allir öryggi, samveru og gott tækifæri til að njóta sín. Ég fagna því mjög að verið sé að stækka rýmið og koma upp listasmiðjum til að efla starfið enn frekar.“

Starfsemin, sem heimsótt er 3580 sinnum ár hvert, er afar mikilvæg fyrir marga sem þangað sækja enda helsta hlutverk athvarfsins að vera öruggur og góður vettvangur fyrir fólk með það fyrir augum að draga úr félagslegri einangrun, ýta undir samskipti við aðra og styrkja andlega og líkamlega heilsu þar sem allir fá að njóta sín.

Bæjarstjóri spjallaði við fólkið og komu hin ýmsu tengsl í ljós. Stundin var afar góð, rétt eins og dagskráin í húsinu.

Morgunmatur, liðkun, hannyrðir og föndur, hádegismatur og frjálstími á mánudögum, spunastuð á þriðjudögum, ganga, list og sköpun á þriðjudögum. Matreiðsla og menningarferð á miðvikudögum, bókaklúbbur á fimmtudögum, þáttaspjall og ljósmndin. Þá er tai chi meðal dagskrárliða á fimmtudögum og föstudagsfjör á föstudögum með pönsum rétt eins og þennan bóndadagsföstudag.

Á Læk er boðið upp á morgunmat, hádegismat og kaffi gegn vægu gjaldi. Á staðnum er einnig þvotta og baðstaða.

Ekki hika við að kynna þér starfið og taka þátt.

Ábendingagátt