Lagt til að hefja undirbúning nýs skóla

Fréttir

Fjöldi íbúa á Völlum í Hafnarfirði hefur vaxið svo um munar hin síðustu ár. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og er Hraunvallaskóli, eini skólinn á svæðinu, orðinn með þeim stærri á landinu. 

 

Fjölmennir árgangar kalla á aðlögun og uppbyggingu á svæðinu

 

Starfshópur um skólamál á Völlum, sem fræðsluráð Hafnafjarðarbæjar skipaði í lok ágústmánaðar, hefur skilað tillögum sínum til ráðsins. Hlutverk starfshópsins var að meta húsnæðisþörf leik- og grunnskóla og móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag skólastarfs í ört vaxandi hverfi á Völlum. Starfshópurinn hefur nú lagt til að húsnæðismál Hraunvallaskóla verði leyst með lausum kennslustofum sem í dag eru nýttar af leikskólanum.

 

Meginhugmyndin er sú að færa nánast alla unglingadeildina í lausar kennslustofur á Fléttuvöllum. Við slíka tilfærslu fæst betri aðstaða fyrir frístundaheimili og til félagsstarfa innan skólans. Samhliða leggur hópurinn áherslu á að undirbúningi að nýjum leik- og grunnskóla á svæðinu verði flýtt og hönnun sett af stað fljótlega á nýju ári. Vonir standa til þess að fyrsti áfangi nýs skóla í Skarðshlíð verði tilbúinn til notkunar haustið 2017. Fræðsluráð tók jákvætt í tillögurnar og vísaði þeim til umsagnar starfsfólks og skólaráðs Hraunvallaskóla.

 

Fólksfjölgun og mikil uppbygging á Völlunum

 

Fjöldi íbúa á Völlum í Hafnarfirði hefur vaxið svo um munar hin síðustu ár. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og er Hraunvallaskóli, eini skólinn á svæðinu, orðinn með þeim stærri á landinu.  Rúmlega 800 börn stunda nám við skólann, 910 börn í heild ef leikskólastigið er talið með.  Leikskólinn starfar undir sama þaki og grunnskólinn og er nú svo komið að fólksfjölgun og stórir árgangar sem eru að flytjast á milli skólastiga kalla á aðlögun að breyttu umhverfi og aðstæðum. Hraunvallaskóli tók til starfa haustið 2005 í bráðabirgðahúsnæði að Ásvöllum í Hafnarfirði með um 90 nemendur í 1. – 4. bekk. Fyrsti áfangi núverandi byggingar skólans að Drekavöllum 9 var tilbúinn haustið 2006. Sama ár hóf leikskólinn starfsemi sína með um 100 nemendur í fjórum deildum. Þriðji og síðasti hluti skólabyggingarinnar var afhentur 2008 og voru 480 nemendur þá skráðir í skólann. Í dag er skólinn kominn að þolmörkum með rúmlega 800 nemendur.  

Ábendingagátt