Lágt vatnsborð í Hvaleyrarvatni

Fréttir

Hvaleyrarvatn hefur verið bæjarbúum hugleikið síðustu vikur vegna vatnsleysis. Í fyrra sumar var oft sannkölluð strandarstemning við vatnið en nú er staðan önnur.

Hvaleyrarvatn hefur verið bæjarbúum hugleikið síðustu vikur vegna vatnsleysis. Í fyrra sumar var oft sannkölluð strandarstemning við vatnið en nú er staðan önnur.

 
Vatnsborðið í Hvaleyrarvatni er tengt grunnvatnsstöðu og er hún afar lág núna. Skýring á þessari lágu grunnvatnsstöðu er talin vera snjóléttur síðasti vetur og frekar lítil úrkoma í sumar. Vatnsborðið í lónunum við Kaldárbotna er einnig lágt.

Vantsborðið hefur lækkað mikið í sumar í Hvaleyrarvatni 
Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri hjá Hafnarfjarðarbæ segir að gera megi ráð fyrir að ef þetta ástand fari ekki að breytast komi vatnsborð í borholunum að lækka. Þess vegna væri óvarlegt að fara auka vatnsmagnið sem verið er að dæla í Hvaleyrarvatn. Það gæti komið niður á afkastagetu vatnsveitunnar og afhendingaröryggi.

Guðmundur segir einnig að haft hafi verið samband við verkfræðistofu sem sérhæfir sig í grunnvatnsmælingum um að skoða orsakasamhengi, þ.e.a.s. hvort vinnsla í Vatnsendakrika hefur einhver áhrif á þessu svæði og hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að vatnsborð Hvaleyrarvatns lækki svona mikið.

Þess má get að að útilistaverkið Óskastund , sem framkallar regnboga þegar sólin skín, sem komið var fyrir í júní á svæðinu dælir vatni úr sömu lögn og í sama magni og áður út í vatnið.

Ljóst er að úrkomu þarf til svo að vatnsborðið hækki í Hvaleyrarvatni í bráð, en sólarþyrstir strandunnendur ættu að finna sér ýmislegt til skemmtunar þangað til, t.d. að sturta sig í regnboganum. Er það ekki sannkölluð óskastund?

Ábendingagátt