Landsmót Samfés og landsþing – 44 ungmenni frá Hafnarfirði

Fréttir

Landsmót Samfés og Landsþing ungs fólks fór fram helgina 4.-6. mars á Hvolsvelli þar sem um 370 unglingar á aldrinum 13-16 ára frá félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu komu saman.

„Hvað finnst okkur“ – viðspyrnuaðgerðir ungs fólks

Landsmót Samfés og Landsþing ungs fólks fór fram helgina 4.-6. mars á Hvolsvelli þar sem um 370 unglingar á aldrinum 13-16 ára frá félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu komu saman. Á dagskrá var meðal annars kjör í Ungmennaráð Samfés sem er skipað fulltrúum úr öllum landshlutum, fjölbreyttar valdeflandi umræðu- og afþreyingasmiðjur og Landsþing ungs fólks sem í ár var haldið undir formerkjunum „Hvað finnst okkur“ – Viðspyrnuaðgerðir ungs fólks.  Frá Hafnarfirði fóru 44 ungmenni á landsmótið og eru fulltrúar Hafnarfjarðar í ungmennaráði Samfés þeir Óskar Karl Ómarsson og Smári Hannesson.

Þátttakendur eru ungt fólk af landinu öllu 

Á Landsþinginu hefur ungt fólk af öllu landinu tækifæri til að koma sínum spurningum, hugmyndum, áskorunum og ábendingum er varða málefni ungs fólks á framfæri. Meðal þess sem kom fram á þinginu er að unga fólkið vill að hlustað sé á þeirra raddir, að virkt samtal eigi sér stað sem leiði til þess að farið verði í nauðsynlegar viðspyrnuaðgerðir strax. Þeim finnst að oft sé ekki tekið mark á börnum og ungmennum og lítið sé gert úr þeirra vandamálum og skoðunum.

Umraedur-a-thinginuMynd: Samfés

Málefnin sem tekin voru fyrir á Landsþingi eru ákveðin og skipulögð af Ungmennaráði Samfés. Þar eru lýðræðisleg vinnubrögð og valdefling ungs fólks allsráðandi. Málefnin sem áhersla var lögð á í ár voru viðspyrnuaðgerðir eftir heimsfaraldur, geðheilbrigði, umhverfismál, kynheilbrigði, jafnrétti kynjanna, skólakerfið, kosningaaldur, stjórnmál og fleira. Hér má sjá skemmtilegt myndband sem tekið var um síðustu helgi og sýnir vel hið flotta starf Samfés á landsmótinu.

Nánar um Landsmót Samfés

Ungmennaráð Hafnarfjarðar

Þess má geta að Hafnarfjarðarbær hefur frá árinu 2005 strarfrækt Ungmennaráð Hafnarfjarðar, sem er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára. Áhersla er lögð á þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum ásamt því að koma skoðunum ungs fólks til réttra aðila innan stjórnkerfisins. Í ungmennaráði sitja tveir fulltrúar úr hverjum grunnskóla í Hafnarfirði, þrír úr hverjum framhaldsskóla í Hafnarfirði og þrír fulltrúar sem eru valdir í gegnum Hamarinn að Suðurgötu 14. Starfsmenn ráðsins eru tveir og starfa þeir fyrst og fremst sem ráðgjafar og mega því ekki hafa áhrif á starfsemi þess.

Nánar um Ungmennaráð Hafnarfjarðar

Ábendingagátt