Látum strax vita af ólykt frá hafnarsvæði

Fréttir

Að gefnu tilefni vill Hafnarfjarðarbær koma meðfylgjandi á framfæri til íbúa og annarra hagsmunaaðila um mál sem tengist ólykt og rakin hefur verið til fyrirtækisins Hlaðbær Colas og hráefnis í biktönkum þess sem staðsettir eru við Óseyrarbraut í Hafnarfirði.

Að gefnu tilefni vill Hafnarfjarðarbær koma meðfylgjandi á framfæri til íbúa og annarra hagsmunaaðila um mál sem tengist ólykt og rakin hefur verið til fyrirtækisins Hlaðbær Colas og hráefnis í biktönkum þess sem staðsettir eru við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og framkvæmdastjóri fyrirtækisins funduðu í nýliðinni viku um alvarleika málsins, rýndu úrbótaáætlun og eru allir einhuga um að finna farsæla lausn sem bæði lágmarkar lyktarmengun og tryggir áfram farsælan rekstur fyrirtækisins sem hefur starfað í sátt og samlyndi við hafnfirskt samfélag til rúmlega 30 ára.

Allar athugasemdir og upplýsingar um ólykt óskast sendar beint á Hlaðbæ Colas

Íbúar og starfsfólk á svæðinu er vinsamlega beðið um að senda upplýsingar um dag og tíma á harpa@colas.is. Ítarleg greining og markvissar aðgerðir standa yfir með það fyrir augum að lágmarka lyktarmengun.

Sú breyting varð á í sumar að Hlaðbær Colas, sem hefur fram að þeim tímapunkti notað bik frá Venesúela, þurfti í ljósi aðstæðna þar í landi að kaupa bik með annan uppruna og virðist núverandi vandi og lyktarmengun liggja í hráefninu. Hlaðbær Colas kallar eftir ítarlegum upplýsingum og athugasemdum frá íbúum og starfsfólki á svæðinu þannig að hægt sé að framkvæma í takti við greiningu og klára núverandi bikbirgðir án þess að til lyktarmengunar komi.

Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi og hefur eftirlit með rekstri

Rétt er að geta þess sérstaklega að hvorki Hafnarfjarðarbær né heilbrigðiseftirlit hafa beina aðkomu að þessu máli umfram það að hafa hagsmuni allra hagsmunaaðila að leiðarljósi og koma kvörtunum og kröfum um aðgerðir á framfæri. Samkvæmt lögum og reglugerðum er það Umhverfisstofnun sem hefur eftirlit með malbikunarstöðvum og olíubirgðastöðvum ásamt því að gefa út starfsleyfi. 

Ábendingagátt