Laus pláss í Tómstund – Smiðjurnar sem setið er um 

Fréttir

Hafið hraðar hendur. Laust er í Tómstund fyrir börn fædd 2012-2015 í sumar. Viðvera frá 8-16 og hægt að snæða nestið sitt milli kl. 12-13. Fjölbreyttar smiðjur og samvera. 

Tómstund fyrir hafnfirsk börn 

Undirbúningur er á lokametrunum fyrir skemmtilegar vikur í Tómstund í sumar. Allt að 120 börn geta tekið þátt í þessum ólíku smiðjum. Heill og hálfur dagur er í boði, ein eða fleiri vikur. Alltaf hefur verið fullt en nú er enn tækifæri til að koma sínu barni að. Tómstund er fyrir krakka í 4.-7. bekk, börn fædd 2012-2015. 

Tómstund 2025 
  • 11.-13. júní. Leikja- og ævintýravika
  • 16.-20. júní. Tilraunavika (Vísindi og matreiðsla)
  • 23.-27. júní. Hreyfingar- og sköpunarvika
  • 30. júní – 1. júlí. Félagsmiðstöðvavika  

Helsta markmið Tómstundar er að virkja börn í sumarfríinu og gefa þeim tækifæri á að hitta önnur börn á svipuðum aldri og kynnast áhugaverðum viðfangsefnum. Að þessu sinni verður Tómstund staðsett í Skarðshlíðar- og Öldutúnsskóla.  

Tómstund er eins og sést hér að ofan skipt upp í fjögur tímabil. Hvert tímabil er ein vika í senn. Í upphafi hvers tímabils velja börnin sér hvaða námskeið þau vilja sækja. Námskeiðin eru frá mánudegi til fimmtudags. Vikan endar síðan á skemmtilegu og óvæntu föstudagsfjöri. 

Tómstund er fyrir nemendur í Hafnarfirði sem voru að ljúka 4.-7. bekk. Enginn aldurskipting er í tómstund og geta öll sem eru skráð mætt bæði fyrir og eftir hádegi eða bara eins og þeim hentar. 

Opnunartími Tómstundar 
  • Fyrir hádegi kl. 8-12. Námskeið hefst kl. 9 
  • Eftir hádegi 13-16. Námskeið hefjast kl. 13 

Á báðum stöðum er aðstaða fyrir krakkana að hita sér og borða nesti milli kl. 12-13 

Engin þátttökuskylda er á námskeiðunum en við hvetjum krakkana til að vera með frá upphafi til enda. Ef krakkarnir hafa ekki áhuga á að taka þátt í þeim námskeiðum sem standa til boða er þeim frjálst að mæta og taka þátt í leikjum eða öðrum sem verður í boði á báðum stöðum (pool, borðtennis, spil og fleira).  Mæting í Tómstund er valfrjáls. Krakkarnir geta því komið og farið þegar þau vilja. 

Já, nú er að njóta samverunnar með vinunum á meðan fullorðnir vinna. 

Ábendingagátt