Leiðtogaskólinn útskrifar stjórnendur í 2. sinn
Nú hafa tæplega 60 stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar útskrifast úr leiðtogaskóla bæjarins Tæplega 30 útskrifuðust í lok síðustu viku. „Við höfum fengið einstakt tækifæri,“ sagði Guðbjörg Ósk Gísladóttir sviðstjóri og einn útskriftarnemanna.
Útskrifað úr skólanum í annað sinn
Um þrjátíu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar hafa nú bæst í hóp þeirra sem hafa útskrifast úr Leiðtogaskóla bæjarins. Þetta er annar hópurinn sem útskrifast úr skólanum. Stefnt er á annað námskeið strax í haust.
„Við sjáum góðan árangur í vinnustaðagreiningu og að við erum að fara upp á við í þjónustukönnun Gallup. Það er ykkur og öllu starfsfólki bæjarins að þakka,“ sagði Valdimar Víðisson bæjarstjóri í úrskrift stjórnendanna nú fyrir helgi. Hann sagði mikilvægt að geta haft góðan húmor við störf sín.
Húmor og auðmýkt mikilvæg
„Stjórnendur verða að geta hlegið. Einnig að viðurkenna veikleika sína, því að þá er svo auðvelt að leiðrétta sig,“ sagði bæjarstjóri við útskriftina og óskaði þeim til hamingju.
Markmið Leiðtogaskólans eru skýr. Þau eru að skapa menningu árangursmiðaðar stjórnunar á vinnustaðnum í samræmi við einkunnarorð Hafnarfjarðarbæjar: hlýleg, áreiðanleg og snjöll þjónusta.
Guðlaug Ósk Gísladóttir, sviðstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs, hélt tölu fyrir hönd þeirra sem útskrifuðust.
„Á síðustu vikum höfum við fengið einstakt tækifæri til að koma saman, stjórnendur frá mismunandi starfsstöðvum bæjarins til að hlusta á fróðleg erindi, hittast og deila reynslu okkar í starfi,“ sagði hún.
Mikilvægt að geta mætt áskorunum
„Með því að mæta hingað í hverri viku höfum við sýnt að við viljum efla okkur sem leiðtoga til að geta betur mætt þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi, bæjarbúum, starfsfólki og Hafnarjarðarbæ til heilla.“
Guðlaug lýsti því hversu mikilvægt væri að vera vel búinn tækjum, þekkingu og tólum sem stjórnandi.
„Með Leiðtogaskólanum er Hafnarfjarðarbær að gefa okkur tækifæri og „búnað“ til að verða betri í því að takast á við breyttar aðstæður á hverjum tíma. Það er verið að leiðbeina okkur til að verða áhrifavaldar til góðs, að við öðlumst hugrekki til að byggja upp traust og tala við fólk með hjartanu, sérstaklega þegar eitthvað kemur uppá,“ sagði hún.
„Það er verið að rétta stjórnendum verkfæri til að koma hópnum á leiðarenda.“ Markmiðið sé að öll vinni að sama marki sem ein liðsheild.
Valdeflir með þekkingu og hvatningu
Þessir stjórnendur eins og fyrsti hópurinn fengu innsýn í valdeflandi leiðtogaþjálfun, góða stjórnsýslu, hvernig leiðtoginn er hreyfiafl, fjármál, jafnræði og stjórnun.
Stofnun Leiðtogaskólans er liður í því að Hafnarfjarðarbær verði enn eftirsóknarverðari vinnustaður sem samanstendur af öflugu leiðtogateymi og ánægðu starfsfólki í samræmi við mannauðsstefnu Hafnarfjarðarbæjar. Fyrirlesarar koma bæði úr atvinnulífinu og innan Hafnarfjarðarbæjar.
Já, öflugir stjórnendur gera bæinn enn betri.