Leiguíbúðir rísa hratt við Hádegisskarð

Fréttir

Tólf leiguíbúðir rísa hratt á tveimur lóðum við Hádegisskarð í Skarðshlíð þessa dagana. Fyrstu íbúðinni var komið fyrir í gær og er gert ráð fyrir að allar íbúðirnar verði komnar á sinn stað í vikulok. Hafnarfjarðarbær fær íbúðirnar afhentar fullbúnar um miðjan nóvember.

Tólf leiguíbúðir rísa hratt á tveimur lóðum  við Hádegisskarð í Skarðshlíð þessa dagana. Fyrstu íbúðinni var komið fyrir í gær og er gert ráð fyrir að íbúðirnar tólf verði komnar á sinn stað í vikulok. Hafnarfjarðarbær fær íbúðirnar afhentar fullbúnar um miðjan nóvember.

IMG_8414

Þessum leiguíbúðunum er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum aðgengi að öruggu húsnæði í langtímaleigu. Skarðshlíð íbúðarfélag hses og Modulus eignarhaldsfélag gerðu með sér samning um uppbyggingu á 12 íbúðum á lóðunum Hádegisskarð 12 og 16 í Skarðshlíð  í maí á síðasta ári. Stofnaðili Skarðshlíðar íbúðarfélags hses er Hafnarfjarðarbær og er hugmyndafræðin til framtíðar að íbúar sjái sjálfir um stjórn og rekstur félagsins. Sex íbúðir eru á hvorri lóð og mun húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðarbæjar fá tvær íbúðir af þessum tólf í félagslegt húsnæðiskerfi sveitarfélagsins. „Með þessari framkvæmd erum við að fara nýjar leiðir í þjónustu og verkefnum sveitarfélags til að koma betur til móts við íbúa. Í þessu tilviki er verið að leita leiða fyrir þá sem eru á mörkum þess að vera of tekjuháir fyrir félagslegt húsnæði en samt með of lágar tekjur fyrir hinn almenna leigumarkað. Hérna er verið að bjóða upp á varanlegt húsnæði á mun betra verði en gengur og gerist á markaðnum í dag. Til framtíðar gerum við ráð fyrir að reksturinn verði að fullu sjálfbær og ef vel tekst til þá ætti verkefnið að vera öðrum sveitarfélögum, félagasamtökum og verktökum hvatning til sambærilegra framkvæmda. Við reiknum með að fyrstu íbúarnir flytji inn strax 1. desember“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.  Umsóknarfrestur um íbúðir rennur út 10. nóvember.

Skarðshlíð íbúðarfélag hses er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarsjónarmiða sem stofnuð var af Hafnarfjarðarbæ. Félagið hefur þann tilgang að byggja eða kaupa, eiga eða hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra íbúða og veita þjónustu í almannaþágu samkvæmt lögum um almennar íbúðir. 

Sjá allar nánari upplýsingar

Ábendingagátt