Leikskólakennarar farnir að skila sér „heim“ í Hafnarfjörð

Fréttir

Nýverið tók Hafnarfjarðarbær ákvörðun um umbyltingu á leikskólastarfi bæjarins. Breytingin felur í sér aukinn sveigjanleika fyrir starfsfólk leikskólanna, aukið samræmi á milli fyrstu skólastiganna, aukið svigrúm, raunveruleg og raunhæf tækifæri til faglegs starfs og mótun á leikskólaumhverfi sem svarar betur þörfum nútíma skólasamfélags.

Leikskólapláss í boði – það eina sem vantar er starfsfólk

Nýverið tók Hafnarfjarðarbær ákvörðun um umbyltingu á leikskólastarfi bæjarins. Breytingin felur í sér aukinn sveigjanleika fyrir starfsfólk leikskólanna, aukið samræmi á milli fyrstu skólastiganna, aukið svigrúm, raunveruleg og raunhæf tækifæri til faglegs starfs og mótun á leikskólaumhverfi sem svarar betur þörfum nútíma skólasamfélags.

Full vinnutímastytting innleidd í öllum leikskólum

Fagmenntaðir innan leikskólanna safna upp sinni styttingu og taka út  í kringum hátíðir, vetrarfrí og með lengra fríi á sumrin. Annað starfsfólk vinnur 36 stunda vinnuviku. Á Degi leikskólans í vikunni fékk Hafnarfjarðarbær viðurkenninguna Orðsporið 2023 frá Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda í leikskólum fyrir þessar aðgerðir. Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna.

Nemendur og starfsfólk leikskólans Hlíðarenda bjóða bæjarstjóra í heimsókn a.m.k. einu sinni á ári.

Nemendur og starfsfólk leikskólans Hlíðarenda bjóða bæjarstjóra í heimsókn a.m.k. einu sinni á ári. Þessi mynd var tekin sumarið 2022.

„Full þakklætis tókum við á móti Orðsporinu 2023 og erum þess fullviss við séum að stíga mikilvæg skref til framtíðar með þessum aðgerðum okkar hér í Hafnarfirði. Fagfólki í leikskólum hefur fækkað á landsvísu og löngu orðið tímabært að snúa þeirri þróun við. Leikskólakennarar kölluðu eftir þessum breytingum og við svörum því kalli með því að umbylta starfsumhverfi leikskólastarfsfólks. Það eru laus pláss í leikskólunum okkar sem við fyllum um leið og starfsfólk hefur verið ráðið,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Yfirlýst markmið að fjölga fagfólki í leikskólum Hafnarfjarðar

Yfirlýst markmið með ákvörðun og aðgerðum bæjarins er að fjölga fagfólki í leikskólum sveitarfélagsins og koma í veg fyrir frekari flutning leikskólastarfsfólks á milli skólastiga og atvinnugreina. Leikskólapláss eru í boði í Hafnarfirði, það eina sem vantar er starfsfólk í lausar stöður. Þegar samþykkt var árið 2019 að eitt leyfisbréf gilti til kennslu á bæði leik- og grunnskólastigi fækkaði fagfólki í leikskólum á landsvísu. Svo virðist sem aðgerðir sveitarfélagsins um styttingu vinnutímans og samstillingu skólastiganna séu þegar farnar að skila sér m.a. á leikskólanum Hlíðarenda þar sem menntaður leikskólakennari sem starfað hefur utan geirans um árabil hefur verið ráðinn sem deildarstjóri. Helsta ástæða umsóknar voru breyttar starfsaðstæður og vinnutímafyrirkomulag innan leikskólanna. Samhliða breytingu á vinnutímafyrirkomulagi er unnið að endurskipulagningu á starfsári leikskólanna með það að markmiði að færa skipulag leikskólastarfsins nær skipulagi grunnskólastarfsins með virku og faglegu námi stóran hluta ársins og faglegu tómstunda- og frístundastarfi með öðruvísi áherslum þar fyrir utan. Þannig verður skólaárið; vinnutími og skipulag, í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar sambærilegt á fyrstu tveimur skólastigunum.

Degi leikskólans 6. febrúar fagnað með fjölbreyttum hætti 

Leikskólar í Hafnarfirði fögnuðu Degi leikskólans í upphafi vikunnar með fjölbreyttum hætti og vörpuðu þannig með sýnilegum hætti sérstöku ljósi á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla Hafnarfjarðar. Í tilefni dagsins heimsótti bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, Grænfánaleikskólann Hlíðarenda þar sem rík áhersla er lögð á umhverfismennt í uppeldis- og menntastarfi skólans sem endurspeglast m.a. í öflugri útikennslu, flokkun, ræktun og moltugerð.

Ábendingagátt