Leikskólinn Áshamar vígður í dag
Margt var við vígslu nítjánda leikskóla Hafnarfjarðarbæjar um hádegisbilið. „Útiaðstaðan hér er örugglega ein sú allra glæsilegasta á landinu,“ sagði Guðrún Jóna Thorarensen stolt í athöfninni en hún mun reka skólann fyrir Hafnarfjarðarbæ.
Áshamar 19. leikskóli Hafnarfjarðar
„Enn og aftur, til hamingju Hafnfirðingar,“ sagði Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri Þarfaþings, þegar hann afhenti Valdimar Víðissyni bæjarstjóra lykil að húsnæði leikskólans Áshamars í Hamraneshverfi, sem Þarfaþing lét hanna og byggði fyrir bæinn.
„Þetta er dagur gleði og tilhlökkunar,“ sagði svo Valdimar við opnun Áshamars 19. leikskóla Hafnarfjarðarbæjar fyrr í dag. „Þetta er dagur fyrir börnin sem munu hér vera og læra,“ sagði hann. „Leikskólar gegna lykilhlutverki í lífi barna og fjölskyldna. Þeir eru ekki aðeins staður fyrir leik og nám heldur grunnurinn að félagsfærni, sjálfstæði og sköpunargleði.“ Í skólunum muni þau vaxa dafna og eignast vini.
Glæsilegur leikskóli
Eggert sagði þau í Þarfaþingi heppin að hafa fengið Arkís að hönnuninni. „Þetta er ekki bara glæsilegur leikskóli – Þetta er ákveðið tímamótaverkefni því Áshamar er fyrsti leikskólinn í Hafnarfirði sem byggður er sem módulbygging – lausn sem sameinar hraða, gæði og hagkvæmni,“ sagði Eggert.
Bæjarstjóri afhenti svo Guðrúnu Jónu Thorarensen, framkvæmdastjóra Framtíðar fólks ehf. og nýjum leikskólastjóra leikskólans Áshamars lykilinn en félagið mun nú reka starfsemina. Þegar hafa 40 börn hafið dvöl í leikskólanum, 109 eru skráð en skólinn hefur rúm fyrir 120 börn.
Hönnun sem hentar fullkomlega
Guðrún sagði það greinilega sjást að hlustað hafi verið á fagfólk við í hönnun leikskólans. „Húsið ber með sér öll merki að hér hafa leikskólakennarar haft áhrif á hönnunina. Byggingin hleypir birtu inn í hjörtu þeirra sem hér munu dvelja og starfa,“ sagði hún.
„Hún býður okkur rými til að eflast og þroskast með framúrskarandi vinnuaðstöðu og umhverfi sem gerir öllum kleift að vaxa.“ Útisvæðið sé það stærsta og glæsilegasta sem hún hafi séð. „Eflaust verður það það flottasta á landinu.“
Afar hlýlegt einingahúsið tók á móti gestum við þessa hátíðarstund. Húsið vígt og starfsemin hafin.
Innilega til hamingju öll.