Leikskólinn býður góðan dag – alla daga. Dagur leikskólans er 6. febrúar

Fréttir

Halló, öll. Til hamingju með daginn,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri þegar hún fagnaði árlegum Degi leikskólans með börnunum í Hraunvallaskóla. Á þessum degi er sérstöku ljósi varpað á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla Hafnarfjarðar. Leikskólar landsins eiga daginn í dag. 

Leikskólar landsins eiga daginn í dag
Til hamingju nemendur, starfsfólk og foreldrar! 

Fjör var í Hraunvallaskóla þegar börnin tóku á móti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra sem fagnaði með þeim Degi leikskólans. Hraunvallaskóli var stofnaður árið 2008. Hann stendur að Drekavöllum 9 og þar starfa 40 með rétt yfir 100 börnum. Skólinn hefur þá sérstöðu að þar eru rekin bæði leik- og grunnskóli. Börnin geta því gengið í skólann frá 16 mánaða aldri til sextán ára. Sex leikskólaeiningar eru innan skólans og starfar hann eftir hugmyndafræði opna skólans. Byggingin er hönnuð með það í huga og eru gildi skólans vinátta, samvinna og ábyrgð. Guðbjörg Hjaltadóttir, leikskólastjóri, sem og starfsfólk leikskólans tóku á móti bæjarstjóranum, Jennýju Dagbjörtu Gunnarsdóttur, þróunarfulltrúa leikskóla og Árnýju Steindóru Steindórsdóttur, deildarstjóra leikskólamála, á þessum degi tileinkuðum leikskólunum. Hefð hefur skapast í leikskólum Hafnarfjarðar og um land allt að halda upp á daginn með fjölbreyttum hætti. 

Á Degi leikskólans 6. febrúar 2024.

Um Dag leikskólans

En af hverju 6. febrúar? Jú, þennan dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólanna fyrstu samtök sín. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja athygli á leikskólastiginu, mikilvægi þess og því frábæra starfi sem fer fram í skólunum. Markmið með 6. febrúar er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins á degi hverjum. Einkunnarorðin eru: Við bjóðum góðan dag – alla daga.   Þess má geta að á síðasta ári – þennan dag – fékk Hafnarfjarðarbær Orðsporið en hefðbundið er að veita þessi verðlaun í tengslum við þennan ánægjulega dag.  

Meira um Hraunvallaleikskóla: 

  • Leikskólinn er í sama húsi og Hraunvallaskóli og nýtur því góðs af samvinnu við hann. Elstu börnin fara reglulega yfir veturinn í heimsókn í fyrsta bekk. Alla daga borða þau í matsal grunnskólans ásamt yngstu nemendum grunnskólans, sem skapar skemmtilega sameiginlega stemningu 
  • Bókasafn skólans tekur alltaf vel á móti leikskólahópum og íþróttahúsið stendur þeim til boða vikulega og að auki þegar grunnskólinn er lokaður 
  • Hraunvallaskóli hefur fjóra leikskólakennaranema á meistarastigi, þar af þrjá með aðra grunnmenntun en leikskólakennarafræði. Það gefur góða vísbendingu um að ný starfstækifæri hafi vakið áhuga töluvert margra á leikskólakennarastarfinu
  • Hraunvallaleikskóli er SMT leikskóli. SMT-skólafærni er hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Postive Behavior Support / PBS.) Tilgangur þess í skólasamfélaginu er að fyrirbyggja, draga úr og stöðva hegðunarfrávik og þar með skapa jákvætt andrúmsloft
  • Hraunvallaleikskóli hefur dyggðir í hávegum í öllu starfi og eru einkunnarorðin „Vinátta, samvinna og ábyrgð“ – gullnar reglur sem gilda í öllum samskiptum starfsfólks, barna og foreldra og endurspeglast í öllu skólastarfinu

Á vef Hafnarfjarðarbæjar má finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi skólanna 

 

 

 

Ábendingagátt