Leikskólinn Norðurberg fagnar 40 árum

Fréttir

Skólasamfélagið við leikskólann Norðurberg ásamt fleiri góðum gestum fögnuðu 40 ára afmæli skólans með söng, hlátri, léttum ræðuhöldum og góðum veitingum í gær 1. desember, á sjálfan fullveldisdaginn. Innilega til hamingju með faglegt og fallegt starf í fjörtíu ár!

Skólasamfélagið við leikskólann Norðurberg ásamt fleiri góðum gestum fögnuðu 40 ára afmæli skólans með söng, hlátri, léttum ræðuhöldum og góðum veitingum í gær 1. desember, á sjálfan fullveldisdaginn.  Norðurberg er staðsettur í norðurbæ Hafnarfjarðar og tók til starfa 1982. Sex deilda leikskóli með allt að 105 börnum og 30 starfsmönnum. Rauði þráðurinn í starfi leikskólans er umhverfis- og náttúrustefna sem er í sífelldri þróun og endurmati.

Umhverfismennt, græn hugsun og útikennsla einkennandi fyrir leikskólastarfið

Margt hefur breyst í áranna rás í allri umgjörð og innra starfi leikskóla. Kröfur um góða menntun fyrir börnin og starfsfólk, byggða á faglegum grunni hefur þróast mikið og hratt á þessum árum og er enn í stöðugri þróun og verður áfram um ókomna framtíð. Þessi þróun gefur starfinu gildi, gerir það skapandi og skemmtilegt. Starfsfólk á Norðurberg hefur farið í gegnum mörg þróunarverkefni og innleitt þau með góðum árangri. Þessi verkefni eiga það yfirleitt sammerkt að tengjast með einum eða öðrum hætti umhverfismennt, grænni hugsun, náttúruferðir og útikennslu og eru þessir þættir mjög einkennandi fyrir skólastarfið og leikskólann í heild.

Fyrsti leikskólinn á landinu til að flagga Grænfánanum

Norðurberg hefur með stolti borið umhverfismerkið Grænfánann í rétt tæpan áratug en Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning til skóla sem hafa markvisst unnið að umhverfismálum og menntun til sjálfbærni. Norðurberg var fyrsti leikskólinn í landinu til að flagga Grænfánanum og hefur verið í fararbroddi á landsvísu í þessu starfi. Fleiri innleiðingarverkefni snúa m.a. að móttökuáætlunum og snemmtækri íhlutun í málörvun ungra barna. Allt verkefni sem unnin eru með hag nemenda að leiðarljósi og fyrir komandi framtíð. Nýjasta verkefnið er þátttaka í þróun á Laufinu, hugbúnaði sem heldur utan um umhverfismál leikskólans; um innkaup, kolefnisspor og fleira. Samhliða stendur yfir innleiðing á nýju vinnutímafyrirkomulagi leikskólakennara og annars starfsfólks leikskólans.

Einstakur starfsandi, hátt menntunarstig og mikil starfsreynsla

Norðurberg, líkt og aðrir leikskólar, eru fyrst og fremst fólkið sem í honum starfar; fullorðnir sem börn. Starfsandinn á Norðurbergi er einstakur og endurspeglast starfsánægjan ekki síst í nokkuð háum meðaltalsstarfsaldri sem er tæp 13 ár. Hlutfall fagmenntaðra starfsmanna við skólann er hátt og hefur aukist í gegnum árin m.a. fyrir tilstuðlan og hvatningu Hafnarfjarðarbæjar til leikskólanáms með vinnu. Í dag starfa á Norðurbergi 17 leikskólakennarar, 6 háskólamenntaðir, 1 þroskaþjálfi,  1 matreiðslumaður og 10 starfsmenn með aðra menntun og mislanga reynslu af leikskólastarfi.

Innilega til hamingju með faglegt og fallegt starf í fjörtíu ár!

Ábendingagátt