Lestrarsendiherrar 2016

Fréttir

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði hefst á morgun.  Á opnunarhátíð n.k. þriðjudag verða Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016 kynntir, einstaklingar sem koma úr röðum flottra hafnfirskra fyrirmynda.

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði hefst formlega á morgun.  Þessi nýja menningarhátíð, sem stendur yfir í eina viku, er nú haldin í fyrsta skipti og mun vikan endurspegla áherslu á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Á opnunarhátíð vikunnar verða Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016 kynntir, einstaklingar sem koma úr röðum flottra hafnfirskra fyrirmynda.

Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar verða kynntir til sögunnar á sérstakri opnunarhátíð Bóka- og bíóhátíðar Hafnarfjarðar í Bæjarbíói þriðjudaginn 16. febrúar kl. 10:30. Í kringum 150 börn á aldrinum 4-7 ára verða viðstödd opnunarhátíðina auk annarra gesta. Lestrarsendiherrarnir munu á opnunarhátíðinni m.a. lesa síður úr uppáhalds barnabókinni sinni og spjalla við börnin auk þess sem gestum býðst að horfa á skemmtilega kvikmynd ætlaða yngsta aldurshópnum. Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar munu út þetta ár vera andlit lesturs og læsis í Hafnarfirði og hafnfirskum börnum fyrirmynd og hvatning til framfara og árangurs á lestrarsviðinu.


Fléttun við skólastarf, frístundastarf og fjölskyldulíf

Tilgangur nýrrar Bóka- og bíóhátíðar barnanna er að efla áhuga barna enn frekar á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri. Hátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Hafnarborg, Bæjarbíó, Verslunarmiðstöðina Fjörð og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðar er að hvetja börn á öllum aldri og foreldra þeirra til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og – viðburðum á meðan á hátíðinni stendur. Þetta er í fyrsta skipti sem blásið er til slíkrar hátíðar í Hafnarfirði og standa vonir til þess að úr verði árleg hátíð þar sem börn, bækur og bíó eru í sviðsljósinu. Í leikskólum bæjarins verður þessa daga mikil áhersla á bækur, sögur, sögulestur og hlustun. Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar verða haldnar í grunnskólum bæjarins þar sem foreldrum 7. bekkinga er boðið að hlusta á upplestur og framsögn nemenda í 7. bekkjum. Að auki verða bíósýningar á sal í boði innan einhverra skóla. Bíósýningar verða í boði daglega í Bæjarbíói og bókabýttimarkaður barnanna laugardaginn 21. febrúar í Verslunarmiðstöðinni Firðinum.

Í Hafnarborg stendur yfir sýning á verkum Ragnhildar Jóhannsdóttur. Í verkum sínum leggur Ragnhildur áherslu á tungumálið þar sem hún leitast við að skapa sjónræn ljóð í formi skúlptúra, klippimynda og teikninga. Skólahópar á leik- og grunnskólastigi geta pantað heimsókn sérstaklega og fengið leiðsögn um sýninguna. Byggðasafn Hafnarfjarðar býður skólahópum að koma virka daga á sérstaka sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði og aðrar fastar sýningar á safninu. Pantað hjá Byggðasafninu. Í Bókasafni Hafnarfjarðar verður fjölbreytt dagskrá í gangi alla dagana:

  • Ljóð unga fólksins. Landskeppni 4.-10. bekkinga í ljóðaskrifum
  • SMS örsögukeppni. Þema keppninnar er „lestur“. 35 orða örsaga send í #6960035 fyrir 21. febrúar 
  • Útlánaleikur. Foreldrar barna á leik- og grunnskólaaldri fá afslátt af nýju bókasafnsskírteini
  • Semjum sögu saman. Saga skrifuð með þátttöku þinn á umbúðapappír á barnadeild bókasafnsins
  • Ekki dæma bókina eftir bíómyndinni. Bókaútstilling á bókum og bíómyndum gerðum eftir þeim
  • Sögustund eða safnkynningu – opið fyrir skólahópa leik- og grunnskóla

Frír aðgangur er á alla viðburði hátíðarinnar!

Ábendingagátt