List fyrir öll – 6. bekkur í Bæjarbíói

Fréttir

Krakkar í 6. bekkjum hafnfirskra skóla nutu listar fyrir alla í bæjarbíói í morgun. Þá steig hljómsveitin Brek, undir nafninu Berskubrek í þetta sinn, á svið.

List fyrir alla í Bæjarbíói

Frábær stemning myndaðist þegar krakkar í 6. bekkjum Hafnarfjarðarbæjar settust á bekkina í Bæjarbíói og nutu listar fyrir alla. Tónleikarnir voru í tvennu lagi, kl. 9 og svo endurteknir fyrir nýja áhorfendur kl. 10 í morgun.

Hugmyndin með List fyrir alla er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.

Sungu og sögðu sögur

Börnin tóku fulla þátt í tónleikum hljómsveitarinnar Brek, sem að þessu sinni kallaði sig Bernskubrek til að höfða betur til barnanna. „Vitiði hvað það þýðir,“ spurði Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Listar fyrir alla. Svarið var: „Nei,“ úr salnum og útskýring á orðinu bernska hófst.

Hljómsveitarmeðlimir sungu og sögðu sögur og gáfu börnunum tækifæri á að segja sína sögu. Þær lituðust mjög af tábrotssögu Guðmundar Atla Péturssonar mandólínleikara. Sögur af fingurbroti, nefbroti og tábroti fylgdu í kjölfarið. Svo var sungið.

Brek breyttist í Bernskubrek

Hljómsveitin Brek var stofnuð árið 2018 af þeim Hörpu Þorvaldsdóttur söngkonu og píanóleikara og Jóhanni Inga Benediktssyni gítarleikara ásamt Guðmundi Atla mandólínleikara. Kontrabassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson gekk svo til liðs við hljómsveitina snemma árs 2020.

Með List fyrir alla er stefnt að því að á tíu ára grunnskólagöngu fái börn góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Njótum myndanna.

Ábendingagátt