Ljósadýrð, álfakaffi og hreindýr í Hellisgerði

Fréttir

Hellisgerði hefur hin síðustu ár ljómað allt árið um kring og þá ekki síst á aðventunni. Mikill metnaður hefur verið lagður í það hin síðustu ár að skapa þar ævintýraheim ljósa og lystisemda í aðdraganda jóla fyrir fjölskylduna alla. Karlar í skúrum voru í ár fengnir til að hanna og búa til umhverfisvænt jólaskraut fyrir garðinn. Sköpunin hefur nú skilað sér í fallegum hreindýrum úr tré í öllum stærðum og gerðum.

Karlar í skúrum komu að skreytingum skrúðgarðsins í ár

Hellisgerði hefur hin síðustu ár ljómað allt árið um kring og þá ekki síst á aðventunni. Mikill metnaður hefur verið lagður í það hin síðustu ár að skapa þar ævintýraheim ljósa og lystisemda í aðdraganda jóla fyrir fjölskylduna alla. Karlar í skúrum voru í ár fengnir til að hanna og búa til umhverfisvænt jólaskraut fyrir garðinn. Sköpunin hefur nú skilað sér í fallegum hreindýrum úr tré í öllum stærðum og gerðum. Bætast hreindýrin við þann mikla fjölda álfa og huldufólks í Hellisgerði sem sagan segir að þar búi. Þar er einnig fallegt kaffihús og handverksbúð, Litla Álfabúðin, sem opin er um helgar á aðventunni í takt við opnunartíma Jólaþorpsins í Hafnarfirði.

Jólaleiðin liggur um Hafnarfjörð

Sannkallað jólaævintýraland hefur um nokkurra ára skeið risið á aðventunni í Hellisgerði, þessum 100 ára gamla og gullfallega lystigarði í hjarta Hafnarfjarðar. Við innganginn frá Reykjavíkurvegi tekur fallega upplýst jólahjarta á móti gestum og gangandi og síðan tekur við ævintýraveröld ljósa og lystisemda sem gleðja augað og andann. Fjölmargir leggja leið sína um garðinn á göngu um jólabæinn gagngert til að draga djúpt að sér jólaandann og njóta stundarinnar í faðmi fjölskyldu og vina.

Af bókavitum og hreindýrum

Samstarf Hafnarfjarðarbæjar við Karla í skúrum er ekki nýtt af nálinni. Karlar í skúrum sáu um hönnun og smíði á fallegum bókavita sem settur var upp haustið 2021 við inngang frá Hellisgötu í Hellisgerði. Bókaviti sá hefur notið mikilla vinsælda og nýtist með skiptibókamarkaður allt árið um kring þar sem gestir og gangandi eru hvattir til að grípa sér bók og gefa aðra í staðinn við tækifæri. Hugmyndir eru uppi um uppsetningu á slíkum vita víðar um bæinn og hefur Ásvallalaug verið nefnd sem næsta mögulega staðsetning. Karlar í skúrum er samfélagslegt verkefni sem Rauði krossinn hrinti af stað í upphafi árs 2018 og er til húsa að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði þar sem meðal annars vitar og hreindýr eru hönnuð og smíðuð í miklu samstarfi. Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að karlmenn tali best saman þegar þeir eru að vinna öxl í öxl með eitthvað í höndunum. Skúrinn sjálfur er hugsaður sem öruggur og vinalegur vettvangur fyrir karlmenn frá 18 ára aldri til að hittast og vinna að skapandi og skemmtilegum verkefnum, saman eða með sjálfum sér á sínum eigin hraða og forsendum.

Jólaþorpið er opið allar helgar á aðventunni

Jólaþorpið í Hafnarfirði er opið allar helgar á aðventunni; föstudaga frá kl. 17-20, laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-18 til jóla. Í Jólaþorpinu iðar allt af lífi og fjöri og fagurlega skreyttu hafnfirsku jólahúsin bjóða upp á spennandi gjafavöru, sælkerakrásir, handverk og hönnun innan um mild jólaljós, ljúfa tóna og blómstrandi menningu.

Allt um jólabæinn Hafnarfjörð 

Ábendingagátt