Ljósadýrð og útilistaverk á Vetrarhátíð 2022

Fréttir

Vetrarhátíð 2022 fer fram með breyttu sniði dagana 3.-6. febrúar. Í Hafnarfirði verður lögð áhersla á útiveru og upplifun en áhersla er lögð á ljóslistaverk og menningu utandyra í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi. 

Ljósaslóð og útilistaverk lýsa upp náttmyrkrið á Vetrarhátíð 2022

Vetrarhátíð 2022 fer fram með breyttu sniði dagana 3.-6. febrúar næstkomandi. Í Hafnarfirði verður lögð áhersla á útiveru og upplifun en áhersla er lögð á ljóslistaverk og menningu utandyra í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi. Gestir eru hvattir til þess að njóta á sínum eigin hraða, skella sér á síðdegistónleika, skauta á Hjartasvellinu eða í gönguferð milli útilistaverka og virða sóttvarnarreglur sem enn eru í gildi. Safnanótt og Sundlauganótt verða ekki í ár vegna fjöldatakmarkana en fólk er hvatt til þess að skella sér á söfn bæjarins eða í sund þegar þeim hentar! 

Frítt er á söfn bæjarins og í sund fyrir 17 ára og yngri.

5O5A4245

Hjartasvellið baðað ljósum

Hjartasvellið opnar aftur eftir stutt hlé og verður baðað ljósum í tilefni Vetrarhátíðar. Svellið er frábær afþreying, upplifun og hreyfing fyrir alla fjölskylduna og sló rækilega í gegn fyrir jólin. Hjartasvellið verður opið fimmtudag og föstudag frá kl. 14-19, laugardag frá kl. 13-21 og sunnudag frá kl. 13-19. Hægt er að bóka skautaferð á hjartasvellid.is en frítt verður í fyrstu tvær ferðir dagsins í tilefni vetrarhátíðar.

181221_Jolathorpid-29

Síðdegistónar og listamannaspjall í Hafnarborg

Söngvaskáldið Svavar Knútur ásamt hljómsveit kemur fram á tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistónar í Hafnarborg föstudaginn 4. febrúar. Á efniskránni verður sannkölluð söngvaskáldaveisla og mun hljómsveitin leika mörg af helstu lögum Svavars sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarið, lög af plötunum Ölduslóð, Brot, Ahoy! Side A og Bil. Aðgangur er ókeypis. Grímuskylda er á tónleikana, sem hefjast kl. 18 og standa yfir í um klukkustund. Á sunnudag klukkan 14 fer fram listamannsspjall Hallgerðar Hallgrímsdóttur þar sem hún segir frá verkum sínum og sýningunni Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti, sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

Gönguferð milli útilistaverka

Í Hafnarfirði er að finna fjölmörg útilistaverk sem varða sögu bæjarins, byggðarinnar og hafnarinnar, jafnt brjóstmyndir og minnisvarða, auk óhlutbundinna skúlptúra og verka sem sækja innblástur sinn í náttúruna. Kort og lista yfir útilistaverk í Hafnarfirði má finna á utilistaverk.hafnarborg.is. Á vetrarhátíð er tilvalið að skella sér í göngutúr milli útilistaverka og kynna sér upplýsingar um verkin í snjallsímanum. Mörg verkanna eru staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar og við höfnina en einnig má finna fjölda þeirra í höggmyndagarðinum á Víðistaðatúni, við Sólvang og í Hellisgerði. Á Vetrarhátíð er svo síðasti sjéns að skoða ljósadýrðina í Hellisgerði því með hækkandi sól verður hafist handa við að taka ljósin niður.

Ljósaslóð Vetrarhátíðar

Ljósaslóð Vetrarhátíðar í Reykjavík lýsir upp skammdegið á skapandi hátt og myndar skemmtilega gönguleið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll og að Ráðhúsi Reykjavíkur. Rúmlega 20 ljóslistaverk lýsa upp leiðina öll kvöld hátíðarinnar frá kl. 18:30-22. Kópavogskirkja verður upplýst í tilefni Vetrarhátíðar með nýju verki eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur myndlistarmann föstudags- og laugardagskvöldið 4. – 5. febrúar og á Seltjarnarnesi verða Gróttuviti og Seltjarnarnesskirkja upplýst í litum Vetrarhátíðar.

Góða skemmtun og gleðilega Vetrarhátíð heima í Hafnarfirði!

Ábendingagátt