Lóð undir hjúkrunarheimili og viðræður um heilsugæslu

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 22. nóvember síðastliðinn að veita Sóltúni heilbrigðisþjónustu ehf. vilyrði til eins árs fyrir lóð nr. 43 við Hringhamar í Hamranesi. Samhliða hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði átt í viðræðum við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um nýja og glæsilega heilsugæslu í bæjarfélaginu til að svara einnig enn betur þörf stækkandi hóps íbúa.

Vilyrði fyrir lóð undir hjúkrunarheimili og viðræður um heilsugæslu

Áhersla á að auka og efla þjónustu við íbúa og ört stækkandi hóp eldra fólks

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 22. nóvember síðastliðinn að veita Sóltúni heilbrigðisþjónustu ehf. vilyrði til eins árs fyrir lóð nr. 43 við Hringhamar í Hamranesi. Lóðin, sem er 6.726 m2 að stærð, er deiliskipulagi samkvæmt ætluð fyrir hjúkrunarheimili, heilsugæslu og tengda þjónustu. Hafnarfjarðarbær óskaði í sumar eftir tilboðum frá áhugasömum byggingar- og rekstraraðilum í lóðina með hugmyndum að uppbyggingu, þjónustu- og rekstrarfyrirkomulagi. Samhliða hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði átt í viðræðum við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um nýja og glæsilega heilsugæslu í bæjarfélaginu til að svara einnig enn betur þörf stækkandi hóps íbúa.

Lóð undir samfélagsþjónustu með 80 hjúkrunarrýmum

Á lóðinni við Hringhamar 43 er heimilt að reisa allt að fimm hæða byggingu sem inniheldur hjúkrunarheimili, heilsugæslu og þjónustu þessu tengda. Byggingarreitur lóðarinnar er rúmur og innan hans skal koma fyrir bílastæðum, útivistarsvæði, aðkomu neyðarbíla og byggingum. Gert er ráð fyrir allt að 80 hefðbundnum hjúkrunarrýmum, þar sem heimilisfólk hefur sérrými til afnota ásamt sameiginlegum svæðum og skjólsælum útisvæðum. Lóðarhafi mun sjálfur gera samning um rekstur og byggingu þjónustunnar gagnvart viðeigandi ríkisstofnun. „Lífaldur Íslendinga fer hratt hækkandi sem þýðir að það er áríðandi að mæta og sinna þörfum stækkandi hóps aldraðra með viðeigandi þjónustu. Á sama tíma og það er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytt úrræði sem draga úr eftirspurn eftir dýrari þjónustuúrræðum, þá er einnig vaxandi þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða sem þarfnast sólarhringsheilbrigðisþjónustu.  Við erum að svara því kalli með því að bjóða okkur fram í byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Hamranesi,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu.

Vilji fyrir því að ný stór heilsugæsla rísi í Hafnarfirði hið fyrsta

Að undanförnu hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði átt í viðræðum við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu á nýrri heilsugæslu í Hafnarfirði sem myndi þjóna allt að 20.000 manns. Miðsvæði Valla er talið hentugasta staðsetningin en fullbyggð hverfi Valla, Skarðshlíðar, Hamraness og Áslands  munu telja um 13.000 íbúa. Heilsugæsla á svæðinu myndi auk þess þjóna íbúum úr öðrum hverfum bæjarins og kalla þessar tölur á rekstur nokkuð stórrar stöðvar á svæðinu. „Gríðarleg þörf er á að auka og efla þjónustu við ört stækkandi hóp íbúa og eldra fólks í samfélaginu og í takti við framtíðarsýn og nýja aðgerðaráætlun ríkisins sem ber yfirskriftina ,,Gott að eldast“. Við höfum átt gott samtal við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að undanförnu og skýr vilji beggja aðila  til að byggja upp nýja og glæsilega heilsugæslu í Hafnarfirði,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.  Vonir standa til að ákvörðun um uppbyggingu á nýrri heilsugæslu verði tekin á allra næstu mánuðum enda um að ræða mikilvæga viðbót við þá heilsugæsluþjónustu sem þegar er í boði í bæjarfélaginu.

Ábendingagátt