Lokafrágangur á Norðurgarði – Framkvæmdum lykur í maí

Fréttir Tilkynningar

Framkvæmdir eru að hefjast við Norðurbakkann. Vinna við þennan lokafrágang mun standa yfir fram í byrjun maí næstkomandi.

Lokafrágangur á  Norðurgarði 

Framkvæmdum við frágang á Norðurbakkasvæðinu er að mestu lokið. Lokaáfanginn er endurbygging Norðurgarðsins. Þetta kemur fram í bréfi til íbúa Norðurbakkans, sem þeir fá nú inn um lúguna.

„Garðurinn var steyptur upp á síðastliðnu sumri og nú í byrjun febrúar munu hefjast framkvæmdir við lokafrágang á garðinum og næsta umhverfi.

Smíðað verður timburdekk ofan á garðinn og setpallar þar sem grjótfylling er austanvert við garðinn.  Gott aðgengi verður fyrir alla að garðinum og gætt að öryggisatriðum með handriðum á garðinum sjálfum og aðkomuleið.

Yst á garðinum verður smíðað nýtt innsiglingarljós, einnig útsýnis- og dorgveiðipallur og útbúið setsvæði. Góð lýsing verður á garðinum og í setpöllum. Ofan við garðinn verður útbúinn útsýnispallur.

Framkvæmdum lokið í byrjun maí

Vinna við þennan lokafrágang mun standa yfir fram í byrjun maí næstkomandi. Fyrst og fremst er um smíðaverk að ræða og lítið sem ekkert rask verður í nánasta umhverfi. Vinnuvélar verða á svæðinu fyrstu vikur meðan gengið er frá undirstöðum fyrir setpalla.  Aka þarf timbri og öðru byggingarefni á verkstað í byrjun febrúar, en byggingasvæði verður girt af ofan við garðinn.

Strandstígurinn verður opinn fyrir allri umferð, gangandi, hlaupandi og hjólandi meðan á framkvæmdum sendur. Stefnt er að verklokum í byrjun maí næstkomandi.

Við þökkum íbúum fyrir sýndan skilning á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir í bréfinu sem kemur frá  Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbæ.

Ábendingagátt