Magnað myrkur – vetrarhátíð

Fréttir

Fjögurra daga glæsileg Vetrarhátíð hefst n.k. fimmtudag. Söfn í Hafnarfirði taka virkan þátt í Safnanótt sem haldin verður föstudaginn 5. febrúar. Allir viðburðir eru ókeypis.

Fjögurra
daga glæsileg Vetrarhátíð verður haldin frá  4. – 7. febrúar og fer
hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þetta er í
þrettánda sinn sem þessi hátíð ljóss og myrkurs er haldin en fjórar meginstoðir
hátíðarinnar eru: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuður og ljósalist ásamt 150
viðburðum sem þeim tengjast. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á
höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta menningar og útiveru í
eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi
sveitarfélagi. Höfuðborgarstofa hefur yfirumsjón með hátíðinni og eru allir
viðburðir á henni ókeypis. 

Skipulag Vetrarhátíðar:

  • 4. febrúar, fimmtud. kl.
    19.30: Opnunarkvöld við Hörpu, ljósalistaverk og snjóbrettapartý.
  • 5. febrúar, föstud. kl.
    19-24: Safnanótt í tæplega 40 söfnum.
  • 6. febrúar, laugard.
    16-24: Sundlauganótt í 10 sundlaugum.
  • 7. febrúar, sunnud. :
    Snjófögnuður í Bláfjöllum.
  • +150
    viðburðir

Opnunarkvöld
Vetrarhátíðar

Vetrarhátíð
verður sett með afhjúpun verksins Slettireku, fimmtudaginn 4. febrúar
kl. 19.30 við Hörpu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Á
opnunarkvöldinu verður ljósahjúp Hörpu breytt í risastóran gagnvirkan striga
sem almenningur getur myndskreytt með sýndarmálningu. Myndskreytingin fer
þannig fram að vefsíðan paint.is er opnuð í síma og þar verður hægt að
velja liti til að setja á glerhjúpinn. Verkið Slettireka er
vinningstillaga þeirra Halldórs Eldjárns og Þórðar Hans Baldurssonar um
efnilegasta listaverkið á ljósahjúp Hörpu fyrir Vetrarhátíð 2016.  Eftir
setninguna fer af stað skíða- og snjóbrettapartý á
Arnarhóli þar sem færasta skíða- og snjóbrettafólk landsins sýnir listir sínar
undir líflegri tónlist plötusnúða. Gestum og gangandi er einnig boðið að koma
með bretti eða skíði og renna sér í skíðabrautinni sem er sérstaklega sett upp
fyrir þennan viðburð. Þetta er í annað sinn sem Höfuðborgarstofa, Skíðasvæði
Höfuðborgarsvæðisins og fyrirtækið Mintsnow halda skíða- og snjóbrettapartý á Arnarhóli en í fyrra var haldið
sambærilegt partý sem tókst afar vel.

Safnanótt

Safnanótt verður haldin
föstudagskvöldið 5. febrúar en þá opna tæplega fjörtíu söfn á öllu
höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 19 og bjóða upp á skemmtilega og
fjölbreytta dagskrá til miðnættis. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri
geta notið yfir 100 viðburða af öllum stærðum og gerðum á söfnum á
höfuðborgarsvæðinu. Hægt verður að taka þátt í Safnanæturleiknum en
heppnir gestir geta m.a. unnið árskort á söfn, listaverkabækur og fleira.
Sérstakur Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á öllu höfuðborgarsvæðinu og
auðveldar gestum heimsóknina. Miðstöð Safnanæturstrætó verður á Kjarvalsstöðum.

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður
haldin laugardagskvöldið 6. febrúar en frítt verður í sund frá klukkan fjögur
til miðnættis í 10 sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Gestir fá að upplifa
einstaka kvöldstund í sundlaugunum þar sem ljós, myrkur og gleði verða
allsráðandi. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt en meðal þess sem er í boði er
jóga, dans, sundpóló og  kórgjörningur í gufubaði.  Þær sundlaugar
sem taka þátt í Sundlauganótt að þessu sinni eru:

Álftaneslaug,
Árbæjarlaug, Ásvallalaug, Klébergslaug, Lágafellslaug, Laugardagslaug, Salalaug
(Sundlaugin Versölum), Sundhöll Reykjavíkur, Sundlaug Kópavogs og
Vesturbæjarlaug.

Snjófögnuður

Við fögnum
svo snjó og birtu í Bláfjöllum sunnudaginn 7. febrúar á lokadegi Vetrarhátíðar
þar sem íbúum höfuðborgarsvæðisins er boðið að njóta skemmtilegrar
viðburðadagskrár. Plötusnúður mætir á svæðið og skemmtir frá kl. 14-16. m.a.
Frítt er fyrir 15 ára og yngri í fjallið auk þess sem 20% afsláttur er veittur
af leigu á skíðabúnaði.

Nánari
upplýsingar á: 
vetrarhatid.is/

Ábendingagátt