Magnús Kjartansson fær fjórða hjartasteininn

Fréttir

Stundin var hátíðleg en að sama skapi var stemningin létt þegar Magnús Kjartansson tónlistarmaður fékk sinn hjartastein við Bæjarbíó. Steinninn er sá fjórði sem settur er í stéttina fyrir framan þetta einstaka tónlistarhús í hjarta Hafnarfjarðar.

 Hjartasteinn í hjarta Hafnarfjarðar!

Það var svo sannarlega hátíðarstund þegar Magnús Kjartansson tónlistarmaður fékk sinn hjartastein við Bæjarbíó. Steinninn er sá fjórði sem settur er í stéttina fyrir framan þetta einstaka tónlistarhús í hjarta Hafnarfjarðar.

Þótt Magnús sé borinn og barnfæddur Keflvíkingur eiga Hafnfirðingar mikið í honum líka. Hann bjó í Hafnarfirði í 33 ár áður en hann flutti ásamt konu sinni í Grímsnesið. Þar hafa þau búið í rúman áratug.

Magnús iðinn og dáður tónlistarmaður

Magnús var viðriðinn upptökur, útsetningar, hljóðfæraleik og upptökustjórn á mörgum af þekktustu lögum 8. 9. og 10. áratug síðustu aldar – einmitt á þeim tíma sem hann og fjölskylda hans bjuggu í Hafnarfirði. Má þar nefna Brimkló, HLH flokkinn, Halla og Ladda, Brunaliðið, Vilhjálm Vilhjálmsson, Geirmund Valtýsson, auk fjölda annarra verkefna sem unnin voru í Hljóðrita í Hafnarfirði að mestu. Einnig samdi hann á þeim tíma sem hann bjó í firðinum mörg af sínum þekktustu lögum.

Magnús sá fjórði sem meitlaður er í stein

Magnús Kjartansson er fjórði listamaðurinn sem hlýtur hjartasteininn í hjarta Hafnarfjarðar. Fyrir eru hjartasteinar til heiðurs Björgvini Halldórssyni, tónlistarmanni og bæjarlistarmanni Hafnarfjarðar 2018, Þórhalli Sigurðssyni, Ladda leikara og tónlistarmanni, og þá er hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar.

Í tilefni þessa heiðurs efnir Magnús Kjartansson ásamt Vintage Caravan, auk sinnar eigin hljómsveitar, til tónleika í Bæjarbíói þann 21. september næstkomandi.

Við óskum Magnúsi hjartanlega til hamingju!

Ábendingagátt