Málörvunarforritið Orðagull

Fréttir

Orðagull er nýtt málörvunarforrit fyrir spjaldtölvur sem gefið var út í dag á Degi íslenskrar tungu. Orðagull miðar að því að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu. Leitast er við að virkja áhugahvöt nemenda með því að gera námsefnið áhugavert og skemmtilegt og þannig eru m.a. nýtt þau tækifæri sem felast í smáforritum til byggja upp og viðhalda áhuga. 

Smáforritið Orðagull er nýtt málörvunarforrit fyrir spjaldtölvur sem gefið var út í dag á Degi íslenskrar tungu. Orðagull miðar að því að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu. Leitast er við að virkja áhugahvöt nemenda með því að gera námsefnið áhugavert og skemmtilegt og þannig eru m.a. nýtt þau tækifæri sem felast í smáforritum til byggja upp og viðhalda áhuga. Smáforritið byggir á efni sem gefið var út 2010 og notið hefur mikillar hylli.

Styrkir mikilvæga undirstöðuþætti máls og læsis

IMG_5124

Orðagull hentar elstu börnum í leikskóla og börnum á yngsta stigi grunnskóla. Einnig getur það nýst eldri nemendum sem glíma við erfiðleika hvað varðar vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu, orðaforða og endursögn, sem og nemendum með íslensku sem annað tungumál. Allt eru þetta mikilvægir undirstöðuþættir máls og læsis. Höfundar eru þær Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og læsisráðgjafi hjá Menntamálastofnun og Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Teikningar eru unnar af Búa Kristjánssyni og sá tölvuleikjafyrirtækið Rosamosi um alla hugbúnaðarvinnu. Verkefnið var, fyrra á þessu ári, styrkt af Minningarsjóði Bjarna Snæbjörnssonar og Helgu Jónasdóttur og Barnavinafélaginu Sumargjöf. Auk þess hlaut verkefnið tvisvar sinnum styrki úr Þróunarsjóði námsgagna hjá Rannís. Þær Bjartey og Ásthildur voru verkefnastjórar og í hópi höfunda læsisstefnu Hafnarfjarðarbæjar, Lestur er lífsins leikur og er Orðagull eitt af mörgum afleiddum verkefnum stefnunnar sem nær bæði til leikskóla og grunnskóla. 

Málörvunarefni sem hlotið hefur mikla athygli

Smáforritið byggir að mestu á verkefnum úr málörvunarefninu Orðagulli sem gefið var út árið 2010 af sömu höfundum. Málörvunarefnið hefur notið mikillar hylli og er uppselt. Hægt er að nálgast smáforritið Orðagull  í App Store og er það frítt til niðurhals. Forritið kemur til með að nýtast jafnt sem kennsluefni í leik- og grunnskólum sem og á heimilum. Í gegnum skráningarkerfi Orðagulls er foreldrum og kennurum gert kleift að meta árangur og fylgjast með framförum. Skráningarkerfið er sett upp á einfaldan og aðgengilegan hátt m.a. til að auðvelda kennurum vinnu við námsmat. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur geti líka sjálfir fylgst með eigin framförum.

Ábendingagátt