MAN á Íslandi fær heimili í Hafnarfirði

Fréttir

Fyrirtækið Kraftur hefur fest sér lóð að Álhellu 9 og hafið framkvæmdir. „Við stækkum mikið við flutninginn og horfum til þess að fjölga starfsfólki úr 25 í 40,“ Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Krafts sem hefur umboðið fyrir MAN á Íslandi.

Kraftur flytur í Hafnarfjörðinn

Kraftur, sem hefur umboðið fyrir MAN á Íslandi og Palfinger-krana, stefnir á að flytja starfsemi sína til Hafnarfjarðarbæjar. Byggingarframkvæmdir á lóð fyrirtækisins að Álhellu 9 eru hafnar. Fyrirtækið hefur ritað undir samstarfsyfirlýsingu um að efla samstarf sitt við bæinn.

Kraftur opnar á nýjum stað á nýju ári – sem jafnframt er sextugasta afmælisár fyrirtækisins. Flutningur Krafts til Hafnarfjarðar nær til höfuðstöðva fyrirtækisins og starfsemi þess.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri fagnar því að fyrirtækið flytji starfsemina í bæinn. „Það er okkur í Hafnarfirði mikið gleðiefni að fyrirtæki eins og Kraftur kjósi að flytja starfsemi sína hingað. Með því skapast fjölbreytt atvinnutækifæri, aukin verðmætasköpun og styrking á atvinnulífi bæjarins.“

Sameiginleg markmið

  • Stuðla að farsælum flutningi, aðlögun og uppbyggingu starfseminnar í bæjarfélaginu
  • Skapa jákvæðar forsendur fyrir frekari atvinnuuppbyggingu á nærliggjandi svæðum
  • Tryggja snyrtilegt og vandað umhverfi í tengslum við starfsemi fyrirtækisins
  • Byggja upp gagnkvæmt traust og samstarf til framtíðar

Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Krafts, segir stefnt að því að hefja starfsemi að Álhellu 9 í september á næsta ári. Horft hafi verið til lóðarinnar í þónokkurn tíma. „Við þurfum rúmgóða lóð sem hefur gott úti- og athafnasvæði og komum okkur nú fyrir á gífurlega vaxandi athafna- og iðnaðarsvæði,“ segir hann.

„Við stækkum mikið við flutninginn og horfum til þess að fjölga starfsfólki úr 25 í 40. Við erum spennt fyrir komandi tímum enda mikil tímamót framundan.“ Nýtt húsnæði Krafts verður 2600 fermetrar; blanda af verkstæði, lager, sýningasal og starfsmannaaðstöðu.

Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Krafts, og Valdimar Víðisson bæjarstjóri.

Kraftur hefur alla sína áratugi verið umboðsaðili fyrir MAN á Íslandi. Fyrirtækið býður upp á mikið úrval vörubíla og rúta. MAN hefur sannað ágæti sitt við íslenskar aðstæður og verið meðal söluhæstu vörubíla hér á landi um árabil. Kraftur rekur einnig öfluga þjónustu-, verkstæðis- og varahlutadeild.

Ábendingagátt