Áhugaverðir staðir

Hafnarfjörður er fallegur bær frá náttúrunnar hendi. Bærinn er byggður í skeifu fyrir botni fjarðarins, við jaðar virka gosbeltisins sem liggur um Reykjanesskaga. Landslag er fjölbreytilegt en hraunið er eitt af einkennum bæjarins. Marga áhugaverða staði er að finna og hægt að uppgötva með ratleik bæjarins.

Álfahringur

Hér má nálgast skemmtilega gönguleið um álfaslóðir í Hafnarfirði sem Silja Gunnarsdóttir eigandi alfar.is tók saman. Leiðin liggur frá Strandstígnum að Hafnarfjarðarkirkju, upp á Hamarinn um Flensborgartröppurnar og þaðan niður Öldugötu og fyrir aftan Menntasetrið við Lækinn. Þaðan er gengið…

Ásfjall

Tilvalið er að ganga upp á Ásfjall en þar er gott útsýni yfir Hafnarfjörð og nágrannabyggðirnar.

Ástjörn

Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Hægt er að ganga hringinn í kringum tjörnina.

Dvergasteinn

Á grasflötinni milli Hafnarfjarðarkirkju og safnaðarheimilisins Strandbergs, Suðurgötumegin, er steinn sem kallast Dvergasteinn. Þegar kirkjan var byggð árið 1914 fékk hann að standa óhaggaður til að trufla ekki verndaröfl steinsins.

Gamla bárujárnshúsabyggðin

Hafnarfjörður státar af stærstu samfelldu byggð bárujárnsklæddra timburhúsa á landinu. Talsvert er eftir af hinu upphaflega byggðamynstri bæjarins þar sem hús voru byggð á heppilegum stöðum í hrauninu en götur lagðar síðar.

Gufuketillinn úr Coot

Togarinn Coot frá Aberdeen var keyptur til Hafnarfjarðar árið 1905 og var fyrsti togarinn sem Íslendingar eignuðust. Útgerð Coot endaði snögglega þegar hann strandaði við Keilisnes á Reykjanesi árið 1908.

Hamarkotslækur

Hamarskotslækur, oft kallaður einfaldlega Lækurinn, rennur neðan Kinnahverfis, um Hörðuvelli og með Hamrinum. Þar er tilvalið að gefa öndunum brauð, en einstakt dýralíf og skemmtilegar gönguleiðir einkenna lækinn.

Heilög Barbara

Í steinbyrgi í Kapelluhrauni fannst líkneski heilagrar Barböru. Á lágum hraunhól gegnt álverinu við Straumsvík er hlaðið steinbyrgi sem lítið ber á. Þetta eru leifar kaþólskrar kapellu frá miðöldum og hafa þær verið friðlýstar sem fornminjar.

Helgafell

Helgafell er 340 metra hátt móbergsfjall skammt frá Kaldárseli suðaustur af Hafnarfirði. Fjallið er vinsæl fjallgönguleið og tiltölulega auðvelt uppgöngu að norðaustan, þó það sé annars klettótt og bratt.

Hellisgerði

Hellisgerði er almenningsgarður, allur prýddur hrauni. Það er tilvalið að fara þangað með teppi og nesti þegar veðrið er gott og leyfa börnum að skoða sig um og njóta í þessu fallega umhverfi. Á aðventunni er garðurinn klæddur í hátíðarbúning…

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og umhverfi er eitt það fallegasta á höfuðborgarsvæðinu. Margar gönguleiðir eru á svæðinu og öllum er frjálst að veiða í vatninu.

Hvaleyri

Hvaleyri er eyri sunnan við Hafnarfjörð sem er tilvalin til að fara í fjöruferð. Nafnið kemur til þegar Hrafna-Flóki og félagar fundu búrhval á eyrinni. Nú er þar golfvöllur en enn má sjá merki um forna byggð á svæðinu. Hvaleyri…

Klaustrið

Í Karmelklaustrinu við Ölduslóð eru pólskar nunnur. Í kapellu klaustursins eru daglegar messur og á aðventunni er þar jólajata sem öllum er velkomið að skoða. Klausturgarðurinn er yndislegur garður sem nunnurnar hafa gert meira og minna sjálfar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi (10 km²) og eitt af dýpstu vötnum landsins (97 m). Vatnið er mjög fallegt og vinsæll ferðastaður og tilvalið að…

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga listamenn. Stórbrotið landslagið hentar vel til útivistar og náttúruskoðunar.

Strandstígur

Fallegt er að ganga meðfram höfninni og þar er hægt upplifa sögu bæjarins á hjóli eða fæti. Einnig er tilvalið að fara í fjöruferð hjá Hleinafólkvangi eða dorga við Flensborgarhöfn eða Norðurbakkann. Það getur reynt á þolinmæðina en það er…

Straumur

Áin Straumur dregur líklega nafn sitt af sjávarstraumum við Straumshólma eða af neðanjarðarfljótinu sem rennur þar til sjávar frá Kaldárbotnum. Falleg gönguleið er um svæðið.

Út að borða

Hafnarfjörður er þekktur fyrir fjölbreytta flóru af vinalegum veitingastöðum og kósí kaffihúsum

Víðistaðatún

Víðistaðatún er fallegur almenningsgarður umkringdur hrauni við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Á svæðinu ættu allir að geta fundið sér eitthvað að gera við sitt hæfi.