Menningarstyrkir
Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar veitir styrki til menningarstarfsemi og eflingar á hafnfirsku menningarlífi tvisvar á ári: 1. mars og 1. október. Auglýst er eftir umsóknum á vefnum með góðum fyrirvara.
Viðburða- og verkefnastyrkir
Markmiðið er að styðja við menningarstarfsemi í samræmi við menningarstefnu bæjarins og styrkja einstaklinga og félagasamtök til lista- og menningarsköpunar. Umsækjendur eða viðburðir verða að tengjast Hafnarfirði á einhvern hátt eins og með fastri búsetu, að viðburðurinn fari fram í Hafnarfirði eða feli í sér kynningu á menningarstarfsemi Hafnarfjarðar. Ekki er styrkt til ferðalaga, náms og rekstrar.
Menningar- og ferðamálanefnd metur umsóknir eftir markmiðum verkefna og hvernig þau nýtast til að efla fjölbreytt menningarlíf bæjarbúum og hafnfirskum listamönnum til góðs. Tekið er mið af raunhæfni verkefna, kostnaðaráætlun auk tíma- og verkáætlunar. Hægt er að sækja um samstarfssamning vegna lengri eða endurtekinna verkefna til allt að þriggja ára. Hægt er að sjá nánari upplýsingar í úthlutunarreglum vegna menningarstyrkja.
Í umsókn þarf að gera grein fyrir:
- Markmið, lýsing og tilefni umsóknar.
- Styrkupphæð.
- Tíma- og verkáætlun.
- Önnur fjármögnun.
- Kostnaðaráætlun.
Umsóknum skal skila með rafrænum hætti í gegnum Mínar síður á vefnum. Aðstoð við skráningu er hægt að fá hjá Þjónustuveri Hafnarfjarðar í síma 585-5500 eða á netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is
Mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga.
- Hvaða verkefni er verið að sækja um styrk fyrir. Nafn verkefnis ætti að vera bæði stutt og lýsandi fyrir verkefnið.
- Hver eða hverjir sækja um styrkinn og ætla að vinna verkefnið sem sótt er um styrk fyrir.
- Hvar verkefnið fer fram.
- Hvernig eigi að vinna verkefnið: Stutt verklýsing eða verkáætlun.
- Hvað kostar það? Kostnaðaráætlun þarf að vera hluti af umsókn
- Fyrir hverja? Koma verður fram fyrir hverja verkefnið er unnið; hver sé markhópur þess.
- Af hverju? Koma verður fram hver ávinningurinn af verkefninu er fyrir þátttakendur og samfélagið.
Umsækjendum er bent á að skoða fyrri úthlutanir og gera raunhæfar áætlanir.