Hafnarborg

Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, sýnir verk eftir leiðandi íslenska og erlenda listamenn.

Starfsemi Hafnarborgar

Sýningardagskrá safnsins er fjölbreytt og býður upp á ólíka miðla samtímamyndlistar auk þess sem verk íslenskra listamanna frá fyrri hluta 20. aldar eru sýnd reglulega. Safnið varðveitir listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og skipa verk Eiríks Smith (f.1925) þar veglegan sess. Reglulega eru settar upp sýningar úr safneign. 

Að jafnaði eru haldnar 10–12 myndlistarsýningar á ári. Þar má finna verk sem spanna íslenska listasögu, allt frá þjóðargersemum frumkvöðlanna til tilraunakenndra verka listamanna samtímans. Fyrirlestrar og málþing í tengslum við sýningar safnsins eru fastir liðir auk þess sem boðið er upp á samtal gesta við listamenn og sýningarstjóra. 

Listasmiðjur og leiðsögn fyrir börn eru líka reglulegir viðburðir. Yfir veturinn eru hádegistónleikar haldnir mánaðarlega og er þar lögð áhersla á klassíska tónlist. Tónleikaröðin Hljóðön er síðan tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. 

Í Hafnarborg er hægt að leigja sali fyrir fundi, tónleika eða aðra viðburði. Þar er einnig rekin gestavinnustofa fyrir erlenda listamenn.

Leiðsögn

Hafnarborg býður upp á leiðsögn um sýningar safnsins fyrir almenna hópa eftir pöntun, bæði á íslensku og ensku. Hægt er að sníða hverja leiðsögn að óskum hópsins, með tilliti til efnis, áherslna og tímalengdar.

Til að bóka leiðsögn, vinsamlegast hafið samband í síma 585 5790 eða með því að senda póst á hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Skólaheimsóknir

Hafnarborg býður skólahópa sérstaklega velkomna í heimsókn að skoða sýningar safnsins. Markmið skólaheimsókna er að hvetja nemendur til umhugsunar um myndlist og hönnun; að sjá, skoða, uppgötva og tjá sig. Upplýsingar um sýningar eru sendar skólum vor og haust.

Tekið er á móti skólahópum eftir samkomulagi alla virka daga kl. 9–16 og er heimsóknin skólum að kostnaðarlausu. Hægt er að bóka í síma 585 5790 eða með tölvupósti á hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Almennt er miðað við að fjöldi nemenda í hverjum hóp sé ekki yfir 25 svo allir fái sem mest út úr heimsókninni. Það er því lagt upp með að skipta fjölmennari hópum upp í tvo eða fleiri smærri hópa.

Hafnarborg kr.
Aðalsalur (fundir og aðrir viðburðir) 92.325 kr.
Aðalsalur (tónleikar < 100 gestir) 61.150 kr.
Aðalsalur (tónleikar > 100 gestir) 86.330 kr.
Flygill í aðalsal 31.175 kr.
Miðasala í húsinu (frá kl. 17–20 á tónleikadag) 18.585 kr.
Apótek og Sverrissalur (dagfundur) 24.580 kr.
Apótek og Sverrissalur (kvöldfundur) 57.553 kr.
Móttaka og leiðsögn hópa utan opnunartíma 21.900 kr.
Afnot af gestavinnustofu á mánuði 500€
Stólar, sólarhringsleiga á hvern stól 120 kr.