Margar leiðir til að styrkja áfangastaðinn Hafnarfjörð

Fréttir

Skemmtiferðaskipum fjölgar í Hafnarfjarðarhöfn á næsta ári. Ný úttekt Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er komin út.

Margt í úttekt Markaðsstofunnar

Áætlað er að 31 skemmtiferðaskip með samtals 7500 gestum og 4400 manna áhöfn komi til Hafnarfjarðar á næsta ári. Þeim fjölgar um ríflega 70% milli ára. Útlit er fyrir að þau verði 18 í ár en voru 19 árið 2024. Þetta má sjá í nýrri úttekt Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um áfangastaðinn Hafnarfjörð.

Kortleggja Hafnarfjarðabæ

Í úttekt Markaðsstofunnar er tíundað hvernig unnið hefur verið að því að kortleggja bæinn sem áfangastað ferðamanna. Stefna um komu skemmtiferðaskipa verður kynnt á næstunni.

„Drög að nýrri stefnu verða nú kynnt í bæði menningar- og ferðamálanefnd sem og í Hafnarstjórn,“ segir  segir Sunna Magnúsdóttir, ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

„Vinnan undanfarið undir forystu Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins hefur verið afar ánægjuleg. Við erum á réttri leið og vöxum í takti við þarfir bæjarins.“

Unnið er áfram með niðurstöðurnar. Vinnan hefur leitt af sér tengsl og verkefni. Til að mynda hefur 4,5 kílómetra löng gönguleið um höfnina í og miðbæinn verið mörkuð. Þar er þjónusta og afþreying bæjarins tíunduð. Þið sem hafið gengið um höfnina sjáið hjartalaga skilti þar sem þjónustan er kynnt.

„Ég hvet ykkur öll til að prófa gönguleiðina. Hún sýnir hvað bærinn okkar er einstakur,“ segir Sunna.

Þurfum séreinkenni fyrir bæinn

Markmið Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur með sjálfbærni að leiðarljósi. Haldnar voru vinnustofur í nóvember og desember í fyrra með aðildarfélögum Markaðsstofunnar til að kortleggja Hafnarfjörð sem áfangastað.

Farið var yfir sýnileika Hafnarfjarðar á netinu í samantektinni og talið vanta „rauðan þráð“ í myndefni tengt Hafnarfirði. Með fleiri myndum megi byggja ímynd bæjarins sem áfangastaðar ferðamanna betur upp. Mikilvægt sé að skapa sjónrænt auðkenni sem fólk tengi skýrt við bæinn.

Talað er um í samantektinni hversu mikil ásýnd bæjarins muni breytast á næstu árum:

  • Óseyrarhverfi
  • Hvaleyrarbraut
  • Flensborgarhöfn
  • Hótel Víking
  • Tækniskólinn

Margt sem einkennir Hafnarfjörð

Einnig er sagt frá vinnustofu þar sem þátttakendur svöruðu ýmsum spurningum um Hafnarfjörð sem áfangastað. Niðurstaðan sýndi að fólk horfði til sjávar, hrauns, upplandsins og fallegrar náttúru. Einnig gömlu húsanna, Jólaþorpsins sem og margra annarra þátta.

Meðal hugmynda sem myndu styrkja Hafnarfjörð sem áfangastað var Jólaþorp allt árið, þar sem miðbærinn væri lifandi markaðstorg allt árið með handverki og kvöldstemningu. Bærinn væri einnig álfabær, þar sem hægt væri að halda upplifunargöngur með leiðsögn um bæinn. Þá mætti sérhanna víkingasýningu í reiðhöllinni þar sem haldnir væru bardagar á hestum. Hjartalestin um miðbæinn var einnig meðal hugmynda.

Mörg tækifæri í bænum

Niðurstaða verkefnisins var að mörg tækifæri leynist í áfangastaðnum Hafnarfirði og að efla megi móttöku ferðamanna, til dæmis með því að halda áfram frekari markaðssetningu, fjölga gistimöguleikum og veitingastöðum, auka framboð af afþreyingu og styrkja samgöngur til Hafnarfjarðar og frá.

Starfinu verður haldið áfram, verkefnum forgangsraðað og þeim beint í réttan farveg.

Hlutverk Markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins:

  • Efla vitund og þekkingu um áfangastaðinn og allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða, jafnt fyrir ferðamenn og íbúa.
  • Þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs, ríkis og stoðkerfisins.
  • Efla samkeppnishæfni og slagkraft áfangastaðarins í alþjóðlegri samkeppni.
  • Stuðla að sátt íbúa, atvinnulífs og sveitarfélaga um málefni ferðaþjónustunnar.
  • Styrkja stoðir og uppbyggingu ferðaþjónustunnar, bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu og atvinnustarfsemi.
  • Annast markaðs- og kynningarstarf, áfangastaðaþróun og stuðla að fagmennsku.
  • Vera málsvari og samnefnari fyrir ferðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu.

Viðkomustaðir:

  • Smábátahöfnin
  • Strandlengjan
  • Sundhöll Hafnarfjarðar
  • Víðistaðatún
  • Hellisgerði
  • Vitinn
  • Lækurinn
  • Fríkirkjan
  • Hafnarfjarðarkirkja
  • Byggðasafn
  • Hafnarfjarðar

 

Ábendingagátt