Margrét Sverrisdóttir skólastjóri Öldutúnsskóla

Fréttir

Margrét Sverrisdóttir setti Öldutúnsskóla í fyrsta sinn sem ráðinn skólastjóri í gær. Hún hefur verið starfsmaður skólans í tvo áratugi. Yfir 600 nemendur sækja þar nám.

Rótgróin en ný í Öldutúnsskóla

Margrét Sverrisdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Öldutúnsskóla. Nemendur og foreldrar þekkja Margréti vel. Hún hefur verið fastur punktur í tilveru skólans síðustu tuttugu ár. Hún var settur skólastjóri í ársbyrjun og ráðin á vordögum.

Margrét er með meistaragráðu í kennslufræðum auk framhaldsgráðu í stjórnun menntastofnana. Hún hefur í aldarfjórðung starfað innan grunnskóla sem kennari, deildarstjóri og skólastjóri en lengst af sem aðstoðarskólastjóri, einmitt í Öldutúnsskóla. Þá starfaði hún um tíma á frístundaheimili í Kaupmannahöfn. Hún tekur spennt við stjórnartaumunum.

„Það er alltaf sérstök tilfinning að fara á milli stóla og sjá hvað verkefnin eru ólík,“ segir hún. Hún tekur við traustu starfi í þessum rótgróna skóla og setur áhersluna á teymisvinnu. „Ég er virkilega ánægð að vera treyst til verksins og fá að leiða gott starf skólans.“

Öldutúnsskóli er einn elsti skóli bæjar en kennsla þar hefur verið samfelld frá árinu 1961. Hann er jafnframt sá fjölmennasti því í honum stunda rúmlega 600 nemendur í 1.-10. bekk nám, þar af 220 í unglingadeild. Nýjasta fjöður í hatt skólans eru verðlaun Heimilis og skóla, fyrir ári síðan, fyrir líðanfundi en þeim er ætlað að efla samstarf milli skóla og foreldra. Líðanfundir hafa verið teknir upp í öðrum skólum.

„Veturinn fer vel af stað,“ segir Margrét. „Skólasetning í gær og allt starfið farið af stað. Hópefli í dag og svo hefjast leikar.“ Og hverjar verða helstu áherslurnar í starf. „Góð og rík samskipti við foreldra og nemendur.“

Við bjóðum Margréti velkomna til áframhaldandi starfa!

Ábendingagátt