Margt á prjónunum í Prjónahorninu

Fréttir Jólabærinn

Soffía M. Gísladóttir, eigandi Prjónahornsins, er hjúkrunarfræðingur sem lét drauminn um að opna verslun rætast.

Jólin koma í Prjónahorninu

„Þetta tækifæri datt upp í hendurnar á okkur,“ segir Soffía M. Gísladóttir, eigandi Prjónahornsins,  sem hún opnaði í apríl á þessu ári ásamt fjölskyldunni að Lækjargötu 2 í Hafnarfirði.

Prjónahornið selur uppáhaldsgarnið hennar frá ítalska framleiðandanum Lana Gatto ásamt öðru tengdu prjónum. Það er ekki það eina. Maður hennar selur þar úr undir merkinu Sigma watches og dóttir hennar eigin málverk. Sagt er frá Prjónahorninu í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar.

„Þannig að við fjölskyldan erum hérna með áhugamál okkar og yngri dóttirin hefur séð um alla bakvinnu í uppsetningu á tölvunni og á heimasíðunni.“

Soffía er lærður hjúkrunarfræðingur og starfaði vel á annan áratug á skurðstofu í Orkuhúsinu. Hún vatt kvæði sínu í kross og valdi áhugamálið, handavinnu. Þá selur hún einstakar dagbækur frá Paper Republic.

„Ég skrifa sjálf í dagbækur og fannst því tilvalið að bjóða ekta bækur.“ Margt má finna í Prjónahorninu og því þess virði að staldra við í þessari gullfallegu verslun. Fjölskyldan bíður nú fyrstu jólanna í verslunarrekstri.

„Já, við erum öll spennt og ég mjög spennt enda svo mikið jólabarn.“

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt