Meginmarkmið að tryggja íbúum húsnæði við hæfi

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur samþykkt nýja húsnæðisáætlun um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu. Hlutverk áætlunar er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í sveitarfélaginu, greina framboð og eftirspurn eftir mismunandi húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila. Húsnæðisáætlun hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi íbúa.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur samþykkt nýja húsnæðisáætlun um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu og er hún gerð til ársins 2026. Hlutverk áætlunar er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í sveitarfélaginu, greina framboð og eftirspurn eftir mismunandi húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, til skemmri og lengri tíma. Húsnæðisáætlun hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi íbúa í sveitarfélaginu. Síðan í maí 2016 hefur starfshópur skipaður af bæjarráði unnið að verkefninu ásamt fjölskylduþjónustu og skipulagsfulltrúa. 

Sjá húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarbæjar 2019-2026

Helstu forsendur, niðurstöður, áherslur og markmið í húsnæðismálum


Helstu forsendur til grundvallar

Helstu forsendur sem liggja til grundvallar þessari greiningu og áætlun eru gildandi aðal-og deiliskipulagi Hafnarfjarðar, greining á gögnum meðal annars frá Hagstofu Íslands, Íbúðalánasjóði, Þjóðskrá Íslands og Hafnarfirði. Almennt miðast gögn frá Hafnarfirði við lok júní 2018. Í kjölfar greiningar á stöðu húsnæðismála og samsetningar íbúa í sveitarfélaginu var farin sú leið að gera hluta að upplýsingum aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins með upplýsingamælaborði. Hægt er að skoða mælaborðið á heimasíðu bæjarins eða HÉR

Leigumarkaður og fasteignamarkaður

Meðalleiguverð í Hafnarfirði á árinu 2017 byggt á þinglýstum leigusamningum nam 2.158 kr. á m2. Meðalleiguverð hefur hækkað um 39% frá árinu 2013. Meðalleiguverð í félagslegum íbúðum sveitarfélagsins er um 1.130 kr. á m2 á sama tíma. Samkvæmt aðal-og deiliskipulagi er áætlun um úthlutun lóða til íbúðarbyggingar fyrir allt að 4.950 íbúðir til ársins 2030. Sú uppbygging mætir væntri íbúðaþörf skv. spá Hagstofu Íslands og rúmlega það að því gefnu að allar lóðir verði fullnýttar til byggingar á íbúðum á uppgefnu tímabili. Ef miðað er við að 2,9 íbúar búi í hverri íbúð er möguleiki á allt að 14.300 manns geti búið í þessum íbúðum. Áætluð skipting þessara lóða er að 73% þeirra séu fjölbýlishús, 17% raðhús/parhús og 10% einbýlishús og mun uppbygging vera í Áslandi, Skarðshlíð, Hamranesi og Hrauni. Samkvæmt aðal-og deiliskipulagi er byggingatímabil á Hraunum áætlað til ársins 2035. Fermetraverð í sérbýli var 346 þús.kr. að meðaltali á árinu 2017 og hækkaði um 25% milli ára. Alls hefur fermetraverð hækkað um 52% frá árinu 2013. Fermetraverð í fjölbýli var 401 þús.kr. að meðaltali á árinu 2017 og hækkaði um 22% milli ára. Alls hefur fermetraverð hækkað um 68% frá árinu 2013.

Meginmarkmið að tryggja íbúum húsnæði við hæfi

Meginmarkmið Hafnarfjarðarbæjar í húsnæðismálum er að tryggja íbúum sveitarfélagsins húsnæði við hæfi. Áhersla er lögð á að íbúar hafi öruggt húsnæði hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki. Fjölbreytt framboð þarf að vera fyrir hendi til að koma til móts við íbúa. Horfa þarf til íbúaþróunar í sveitarfélaginu og við framboð húsagerða og búsetukosta þarf að taka mið af þróun samfélagsins og húsnæðismarkaðarins á hverjum tíma, svo sem varðandi fjölskyldustærðir, aldurssamsetningu, stöðu á byggingarmarkaði og efnahagsþróunar. Húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarbæjar tekur mið af fjölbreyttu mannlífi og heilsueflandi samfélagi þar sem horft er til umhverfissjónarmiða og sérstöðu sveitarfélagsins hvað varðar verndun byggðar og samspil við ósnortna náttúru sveitarfélagsins. Helstu áherslur til næstu fjögurra ára eru:

  • Gert er ráð fyrir framlagi að fjárhæð 500 milljónir króna á ári til fjárfestinga í félagslega húsnæðiskerfinu á árunum 2019 til 2022
  • Stofnuð hefur verið húsnæðissjálfseignarstofnun (hses) í eigu Hafnarfjarðarbæjar sem mun byggja tvö sex íbúða fjölbýlishús fyrir þá sem eru undir tekju-og eignamörkum samkvæmt lögum um almennar íbúðir
  • Farið verði í heildstæða stefnumótun í samráði við notendur um framtíðarfyrirkomulag búsetumála fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, meðal annars með tilliti til þjónustu í eigin húsnæði. Lögð verði áhersla á fjölbreytni búsetuforma í samráði við notendur

Ábendingagátt