Menn

Fréttir

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna.

Á sýningunni verða sýnd verk eftir fjóra karllistamenn í fremstu röð, þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Verkin sem valin hafa verið til sýningar eru unnin í fjölbreytta miðla bæði vídeóverk, ljósmyndir, málverk, teikningar og útsaumsverk. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Jafnframt verða á sýningunni verk sem sækja myndefni á slóðir sem fyrir mörgum eru dæmigerðar fyrir konur og þeirra reynsluheim.

Verkin vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og hugsanlega misvísandi skilaboð frá umhverfi og samfélagi. Megineinkenni verkanna er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna um leið og í sumum verkanna má greina tilvistarkreppu.

Um listamennina:

Kristinn G. Harðarson (f. 1955) hefur á ferli sínum fengist við ólík viðfangsefni sem flest tengjast þó samfélagsrýni. Nærumhverfið er honum hugleikið og nokkur hluti verka hans tengist stöðu hans sem föður, heimilinu og fjölskyldulífi. Þessum verkum hefur hann tíðum fundið form í miðla sem löngum hafa verið tengdir sköpun kvenna svo sem í útsaum. Kristinn nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1973 – 1977 og stundaði framhaldsnám við listaakademíuna í Haag í Hollandi.

Finnur Arnar Arnarson (f. 1965) hefur fundið hugmyndum sínum farveg í ljósmyndum, vídeóverkum, skúlptúrum og innsetningum. Hann sækir sér innblástur í sitt nánasta umhverfi og hefur unnið verk þar sem fjölskylda hans er viðfangsefnið en einnig hefur hann unnið verk í félagi við fjölskyldu sína. Finnur stundaði myndlistarnám við fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 – 1991. Hann hefur samhliða vinnu sinni að myndlist hannað leikmyndir fyrir leikhús og sýningar fyrir ýmis menningarsögusöfn.

Hlynur Hallsson (f. 1968) hefur vakið athygli fyrir verk sem fjalla um samfélagsmál og pólitík í víðu samhengi og fjalla verk hans gjarnan um samskipti, skilning, tengsl, stjórnmál og hversdagslega hluti. Hlynur stundaði myndlistarnám við Myndlistaskólann á Akureyri og í fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands áður en hann hélt til framhaldsnáms í Þýskalandi þaðan sem hann lauk meistaragráðu 1997. Hlynur hefur setið á Alþingi og sinnt trúnaðarstörfum fyrir myndlistarmenn. Hann er nú forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri.

Curver Thoroddsen (f. 1976) er þekktur fyrir gjörninga og önnur listaverk þar sem listin og hversdagslegar athafnir renna saman. Verk hans eiga sér oft stað fyrir utan hefðbundin sýningarrými eða í sýningarsölum sem hann umbreytir og gerir að heimili sínu. Curver nam myndlist við Listaháskóla Íslands og við School of Visual Arts í New York þaðan sem hann lauk MFA námi 2009. Jafnframt því að stunda myndlist hefur Curver verið virkur tónlistarmaður m.a. með Ghostigital.

Sýningarstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir.

Dagskrá í tengslum við sýninguna: 

Sunnudagur 29. mars kl. 15 
Listamannsspjall – Hlynur Hallsson
Fimmtudagur 2. apríl kl. 15
Listamannsspjall – Kristinn G. Harðarson
Laugardagur 18. apríl kl. 14
Hringborð – Málþing um sýninguna MENN í samstarfi við Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK).
Sunnudagur 3. maí kl. 15
Listamannsspjall – Finnur Arnar Arnarson
Fimmtudagur 7. maí kl. 20
Listamannsspjall – Curver Thoroddsen

Ábendingagátt