Menningar- og heilsugöngur sumarsins 2019

Fréttir

Í sumar er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll fimmtudagskvöld kl. 20. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20 nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Í sumar er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll fimmtudagskvöld kl. 20. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20 nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

6. júní – Undirhlíðar – óvænt uppákoma
Einar Skúlason leiðir 90-120 mínútna göngu að Undirhlíðum á fjölbreyttu undirlagi. Á leiðinni verður óvænt uppákoma eða uppákomur sem gera gönguna að ennþá skemmtilegri reynslu. Gengið frá bílastæðinu við Kaldárselsveg

13. júní – Á slóðum ljósmyndanna
Kirsten Simonsen sýningarstjóri og Magnea Guðmundsdóttir arkitekt ganga um slóðir ljósmyndasýningarinnar Tímahvörf sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Rætt verður um bæinn, þróun hans og ímynd eins og hún birtist okkur í ljósmyndum 8 samtímaljósmyndara. Gengið frá Hafnarborg

20. júní – Barnaganga kl. 18:00
Fanney Rós Magnúsdóttir íþróttafræðingur leiðir barnagöngu um Víðistaðatún. Skemmtiganga fyrir alla fjölskylduna þar sem boðið verður uppá upphitun, leiki, teyjur og slökun sem er sérstaklega stíluð inná yngstu göngugarpana. Gengið frá útigrillhúsinu á Víðistaðatúni. Heitt verður í kolunum í grillhúsinu að lokinni göngu fyrir þá vilja grilla.

27. júní – Hafnarfjarðarhöfn 110 ára
Lúðvík Geirsson hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar leiðir göngu um ljósmyndasýningu Byggðasafnsins á Strandstígnum. Gengið frá Drafnarslippnum

4. júlí – Fjölskylduganga í Valaból kl. 18:00
Kolbrún Kristínardóttir barnasjúkraþjálfari leiðir göngu að Valabóli. Æskilegt er að þátttakendur komi með heimagert hollt nesti en stoppað verður í miðri göngu og áð. Gengið frá bílastæðinu við Kaldárselsveg

11. júlí – Hraun – hvar býr fegurðin?
Kristján Örn Kjartansson arkitekt hjá KRADS leiðir göngu um Hraunin og beinir sjónum okkar að hverfinu eins og það er í dag og lýsir framtíðarsýn á hverfið sem nú gengur senn í endurnýjun lífdaga. Gengið frá Bónus Helluhrauni

18. júlí – Stekkjarhraun
Jónatan Garðarsson leiðir göngu um Stekkjarhraun upp að Lækjarbotnum. Gengið frá Setbergsskóla

25. júlí – Krýsuvík
Minjaganga um byggðahverfið í Krýsuvík, höfuðbólið og kirkjustaðinn. Gengið frá bílastæðinu við Krýsuvíkurbæinn

1. ágúst – Húsameistarinn í Hafnarfirði
Pétur H. Ármannsson arkitekt leiðir göngu milli húsa sem Guðjón Samúelsson arkitekt og húsameistari ríkisins teiknaði í Hafnarfirði og ræðir einnig hugmyndir Guðjóns um skipulag bæjarins. Pétur vinnur nú að bók um Guðjón og sýningu sem sett verður upp í Hafnarborg í vetur. Gengið frá Hafnarborg

8. ágúst – Bókmenntabærinn Hafnarfjörður
Hjalti Snær Ægisson bókmenntafræðingur stýrir göngu um slóðir hafnfirskra rithöfunda og ljóðskálda. Við stöldrum við fyrir utan heimili nokkurra þekktra höfunda, spjöllum um eftirminnilegar bækur og lesum brot úr völdum verkum. Lögð verður sérstök áhersla á tímabilið 1940-1980 í sagna- og ljóðagerð og rætt um bókmenntaverk þar sem Hafnarfjörður er sögusviðið. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar

15. ágúst – Skógarganga um Höfðaskóg
Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar leiðir skógargöngu um Höfðaskóg. Steinar þekkir vel til umhverfis skógræktarinnar og hvað skógurinn hefur upp á að bjóða. Að þessu sinni verður fyrst og fremst farið um trjá- og rósasafnið og fjallað um allar þær fjölbreyttu tegundir sem tekist hefur að koma á legg í Höfðaskógi. Mæting í Gróðrastöðina Þöll við Kaldárselsveg

22. ágúst – Álfaganga um Hafnarfjörð
Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur leiðir göngu þar sem nokkrir sögu- og álfasteinar í Hafnarfirði verða heimsóttir, saga þeirra rakin og sett í samhengi við ýmsar kenningar um álfatrú Íslendinga. Reynt verður að svara spurningum um muninn á álfum, huldufólki og dvergum, og hvar og hvenær álfar birtast helst okkur mannfólkinu, samkvæmt þjóðtrúnni.  Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar

29. ágúst – Gamli bærinn
Björn Pétursson bæjarminjavörður leiðir sögugöngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsinu

Menningar- og heilsugöngurnar eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar  og heilsubæjarins Hafnarfjarðar.

Ábendingagátt