Nemendur í Víðistaðaskóla stofna Menntakerfið okkar

Fréttir

Félagið Menntakerfið okkar var stofnað af nemendum í 10. bekk Víðistaðaskóla í nóvember 2020 og vill hópurinn á bak við félagið benda á og taka virkan þátt í samtali um hvernig uppfæra og betrumbæta megi íslenskt menntakerfi í takti við nýja tíma, þarfir og áskoranir. 

Félagið Menntakerfið okkar var stofnað af nemendum í 10. bekk Víðistaðaskóla í nóvember 2020 og vill hópurinn á bak við félagið benda á og taka virkan þátt í samtali um hvernig uppfæra og betrumbæta megi íslenskt menntakerfi í takti við nýja tíma, þarfir og áskoranir. Nemendur byggja hugmyndir sínar á eigin grunnskólareynslu, upplifun vina og kunningja og kalla eftir meiri og ítarlegri fræðslu sem tekur til gagnlegra þátta eins og atvinnuleitar, heimsvandamála og heilbrigðisfræði. Hópurinn kom nýlega til fundar í Ráðhús Hafnarfjarðar og hélt kynningu fyrir bæjarstjóra, fræðslustjóra og formann fræðsluráðs. Nemendur sitja í vinnuhópi sem vinnur þessa dagana að nýrri menntastefnu fyrir Hafnarfjarðarbæ.

IMG_6377

Hópurinn kynnti hugmyndir sínar fyrir bæjarstjóra, fræðslustjóra og formanni fræðsluráðs í Ráðhúsi Hafnarfjarðar. 

Fræðsla og samtal sem tekur á áskorunum samtímans

Félagið setti nýlega í loftið vef sem útlistar þær hugmyndir sem hópurinn hefur þegar sett fram. Hugmyndirnar taka sérstaklega til þátta og málefna er snúa að áskorunum samtímans og miða að því að efla nemendur betur í færni sinni til að takast á við daglegt líf og efla þátttöku þeirra til áskorana í stærra samhengi. Sérstaka áherslu leggur hópurinn á heimsvandamálin sem taka m.a. til loftslagsbreytinga, ofbeldis, mansals og heimilisleysis. Hópurinn vill fá meiri fræðslu um sjúkdóma, fatlanir og geðveiki og er fullviss um að slík fræðsla myndi draga úr fordómum og á einelti. Þannig fengist betri og meiri skilningur á því að fólk er alls konar. Þá kallar hópurinn eftir aukinni skyndihjálp og upplýsingum um hvert hægt sé að leita sér aðstoðar eða koma vinum og kunningjum til aðstoðar ef vanlíðan er fyrir hendi. Skólinn er að þeirra mati frábær vettvangur fyrir fjölbreytta og mikilvæga fræðslu um daglegt líf og áskoranir samtímans og tekur það sérstaklega fram að fræðslan í Víðistaðaskóla sé fjölbreytt og mjög góð en alltaf sé hægt að gera enn betur. Þau vilji tryggja meira samræmi í fræðslu og samfélagskennslu innan allra skóla því þrátt fyrir að skólar í Hafnarfirði leggi m.a. mikla áherslu á forvarnir þá sé það ekki sjálfgefið alls staðar. 

Tillögur Menntakerfisins okkar að breytingum:

  • KYNFRÆÐSLA – að kynfræðsla verði efld
  • HINSEGIN FRÆÐSLA – tryggja þurfi hinsegin fræðslu í námskrá alla grunnskóla (jafnframt tryggja hinsegin fræðslu í kennaranámi).
  • TÖLVUKENNSLA – auka og efla skuli tölvukennslu á unglingastigi.
  • SUND – hægt væri að taka stöðupróf í skólasundi á unglingastigi, ef nemandi nær góðum árangri fær hann að velja annarskonar hreyfingu en skólasund.
  • GEÐFRÆÐSLA – tryggja þurfi fræðslu um geðheilsu
  • HEILBRIGÐISFRÆÐI – tryggja þurfi heilbrigðisfræðslu
  • FJARMÁLALÆSI – auka og efla fjármálalæsi
  • STARFSKENNSLA – bæta og auka starfskennslu
  • HEIMSVANDAMÁL – tryggja þurfi fræðslu um heimsvandamál í samtíð við heiminn
  • FORVARNARKENNSLA – auka og efla forvarnakennslu

Sjá vef Menntakerfisins okkar

Ábendingagátt