Menntastefna í mótun – vinnu lýkur á vormánuðum

Fréttir

Unnið hefur verið að gerð menntastefnu Hafnarfjarðar undanfarin misseri en vinnu við gerð menntastefnunnar var formlega ýtt úr vör haustið 2019. Menntaleiðtogar hafa lagt metnað og alúð í að leggja fagleg sjónarmið á vogarskálar menntastefnu og öflug og góð samvinna við skólasamfélagið hefur aukið virði hennar og innihald.

Unnið hefur verið að gerð menntastefnu Hafnarfjarðar undanfarin misseri en vinnu við gerð menntastefnunnar var formlega ýtt úr vör haustið 2019. Heimsfaraldur hefur haft sín áhrif á framvindu mála og hraða vinnunnar enda hafa menntaleiðtogar, sem eru fulltrúar allra skóla, og aðrir haft í nógu að snúast. Með hækkandi sól og engum takmörkunum eru menntaleiðtogar farnir að funda aftur reglulega á staðarfundum og vinna við menntastefnuna fengið byr undir seglin á ný. Menntaleiðtogarnir hafa lagt metnað og alúð í að leggja fagleg sjónarmið á vogarskálar menntastefnu og öflug og góð samvinna við skólasamfélagið hefur aukið virði hennar og innihald. 

275902702_210276914652585_2498098020980388162_n

Þroski, vellíðan og árangur í námi í fyrirrúmi

Menntastefnan verður vegvísir í átt að þeim markmiðum sem sett eru í samvinnu við nemendur, kennara, starfsfólk og foreldra og liggur hugmyndafræði lærdómssamfélagsins til grundvallar við mótun. Skólasamfélagið, nemendur, kennarar og foreldrar hafa fengið tækifæri til þátttöku í gegnum netkannanir þannig að raddir þeirra og sjónarmið heyrist og sjáist í menntastefnunni. Áfram er opið fyrir skráningu hugmynda í gegnum Betri Hafnarfjörð – samráðsgátt bæjarins og mögulegt að koma ábendingum og sjónarmiðum á framfæri.

Með nýrri menntastefnu verða áherslur gerðar skýrar og tengd markmiðum sem stefnt er að í skólastarfinu þar sem þroski, vellíðan og árangur í námi er í fyrirrúmi. Gert er ráð fyrir að vinnu við menntastefnu ljúki vorið 2022. 

Ábendingagátt