Metfjöldi í miðstöð ferðamanna

Fréttir

Metfjöldi gesta í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík eða í heild 69.000 í júlí.  Hjá UMFR fá ferðamenn hlutlausar upplýsingar um ferðamöguleika, menningu, afþreyingu og þjónustu á landsvísu.

69.000 ferðamenn sóttu sér þjónustu í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík (UMFR) í Aðalstræti í júlí og hafa ekki verið fleiri í einum mánuði frá stofnun árið 1987. Flestir komu þann 30. júlí eða 2.700 manns. Mest varð aukningin í janúar þegar 66% fleiri ferðamenn komu í miðstöðina en í sama mánuði á síðasta ári.

Upplýsingamiðstöð ferðamanna er sá staður í Reykjavík þar sem flestir erlendir ferðamenn hafa viðkomu og margir ákveða í framhaldinu hvernig Íslandsheimsókninni verði best varið. Ferðamenn fá þar hlutlausar upplýsingar um ferðamöguleika, menningu, afþreyingu og þjónustu á landsvísu. UMFR gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki þegar kemur að öryggi ferðamanna og tryggir að nýjustu upplýsingar séu aðgengilegar ferðamönnum hverju sinni. Miðstöðin hefur átt í árangursríku samstarfi við Safe Travel sem er rekið af Landsbjörgu.

Reykjavík loves

Upplýsingamiðstöð ferðamanna spilar stórt hlutverk í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir merkjum Reykjavík loves. Markmið samstarfsins er að kynna ný svæði fyrir ferðamönnum og minnka álag á viðkvæma staði í borgarlandinu. Með því að dreifa ferðamönnum nýtist afþreying og þjónusta á svæðinu í heild. Hlutverk UMFR er jafnframt að auðvelda hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að koma vöru og þjónustu sinni á framfæri við ferðamenn. Miðstöðin hefur átt í samstarfi við Iceland Travel Assistance – ITA frá árinu 2005 um bókun og sölu á ferðum og afþreyingu. Höfuðborgarstofa rekur Upplýsingamiðstöð ferðamanna með fjármagni frá Reykjavíkurborg og Ferðamálastofu og þar starfa 30 manns. UMFR er opin alla daga ársins frá kl. 8-20 fyrir utan jóladag. UMFR hefur verið í Aðalstræti 2 frá árinu 2003 en í haust flytur starfsemin í Ráðhús Reykjavíkur.

Um Höfuðborgarstofu

Höfuðborgarstofa sinnir verkefnum tengdum almennum ferðamálum í Reykjavík, rekstri Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna (UMFR) og markaðssetningu höfuðborgarsvæðisins undir merkjum Reykjavík loves. Hún heldur jafnframt úti einum stærsta ferðavef landsins visitreykjavik.is þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um afþreyingu og þjónustu í borginni. Höfuðborgarstofa ber einnig ábyrgð á skipulagi og framkvæmd ýmissa lykilviðburða á vegum Reykjavíkurborgar, s.s. Vetrarhátíð, Menningarnótt, Barnamenningarhátíð, tendrun Friðarsúlunnar og desember í Reykjavík.

Ábendingagátt