Metþátttaka í Ratleik Hafnarfjarðar

Fréttir

Hafnfirðingurinn Ásta Eyjólfsdóttir er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2023 sem lauk á þriðjudag eftir að hafa staðið yfir í allt sumar. Til að eiga möguleika á að verða Þrautakóngur Ratleiksins þarf viðkomandi að hafa fundið öll 27 ratleiksmerkin sem komið hafði verið fyrir við áhugaverða staði vítt og breitt um bæjarlandið og þó mest í upplandinu.

Ásta Eyjólfsdóttir er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2023

Hafnfirðingurinn Ásta Eyjólfsdóttir er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2023 sem lauk á þriðjudag eftir að hafa staðið yfir í allt sumar. Til að eiga möguleika á að verða Þrautakóngur Ratleiksins þarf viðkomandi að hafa fundið öll 27 ratleiksmerkin sem komið hafði verið fyrir við áhugaverða staði vítt og breitt um bæjarlandið og þó mest í upplandinu. Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2023 fékk forláta gönguskó frá Fjallakofanum í verðlaun. Alls mættu um 140 þátttakendur á uppskeruhátíð Ratleiks Hafnarfjarðar, sem haldin var í Apótekinu í Hafnarborg í síðustu viku.

Sjá tilkynningu á vef Fjarðarfrétta auk fleiri mynda frá hátíðinni í Hafnarborg

Metþátttaka

Alls skiluðu 265 þátttakendur inn lausnum og 133 fundu öll 27 merkin og geta því kallað sig þrautakóng. Aðeins í fyrra kláruðu fleiri allan leikinn en þá kláruðu 6 fleiri allan leikinn. Heildarþátttakan í sumar var um 14% meiri en í fyrra sem líka var metár. 69 fóru á a.m.k. 18 staði sem er 77% fjölgun frá í fyrra og geta þeir kallað sig göngugarp. 63 fóru á a.m.k. 9 staði sem er fjölgun frá í fyrra og geta þeir kallað sig léttfeta. Þátttakendur í Ratleikum er af öllum aldri og er þetta vinsæll fjölskylduleikur. Fólk kemur víða að og mátti sjá þátttakendur frá Selfossi, Vogum, Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Kópavogi og þó langflestir komi frá Hafnarfirði þá mátti líka sjá þátttakendur frá Noregi og Danmörku.

Kort og fróðleikur

Prentað var vandað loftmyndakort þar sem götur og gönguslóðar eru merktar inn á og staðsetning ratleiksmerkjanna. Þátttakendur hafa svo það verkefni að finna bestu leiðina að merkjunum og stundum þarf nokkrar tilraunir til að finna merkin. Kortin lágu frammi víða í bænum en lang flest kortin voru sótt í Fjarðarkaup. Markmið leiksins er að hvetja fólk til að njóta upplands Hafnarfjarðar en leikurinn er gefinn út af Hönnunarhúsinu í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Fjölmargir styrktaraðilar

Það er Hönnunarhúsið ehf. sem gefur út leikinn en Rio Tinto á Íslandi er aðalstyrktaraðili leiksins auk Hafnarfjarðarbæjar sem er samstarfsaðili um útgáfu leiksins. Ómar Smári Ármannsson, sem heldur úti fróðleiksvefnum ferlir.is hefur veitt gríðarlega aðstoð við gerð leiksins en hann er meðal fróðustu manna um Reykjanesið.

Mynd með tilkynningu: Fjarðarfréttir

Ábendingagátt