Miðlun og vöktun fundargerða í skipulagsmálum

Fréttir Verkefnasögur

Hafnarfjarðarbær og hugbúnaðarfyrirtækið Planitor hafa gert með sér þjónustusamning um miðlun fundargerða og vöktunarþjónustu fyrir notendur þjónustu á sviði skipulags- og byggingamála.

Samstarf Planitor og Hafnarfjarðarbæjar

Hafnarfjarðarbær og hugbúnaðarfyrirtækið Planitor hafa gert með sér þjónustusamning um miðlun fundargerða og vöktunarþjónustu fyrir notendur þjónustu á sviði skipulags- og byggingamála. Umsækjendur geta nú fengið sjálfvirkar tilkynningar í tölvupósti um framvindu umsókna um leið og þær eru teknar til afgreiðslu á fundum skipulags- og byggingarráðs, afgreiðslufundum skipulags- og byggingarfulltrúa, í bæjarráði og bæjarstjórn. Umsækjendur merkja við í umsókn á Mínum síðum ef þeir vilja vakta sitt mál.

Ítarlegri upplýsingar og tengingar á planitor.io

Önnur nýjung í þessu samstarfi er að Planitor miðlar núna fundargerðum bæjarins í ofangreindum ráðum og nefndum gegnum miðlæga fundargerða- og upplýsingagátt fyrirtækisins á planitor.io. Þar eru birtar ítarlegri upplýsingar og tengingar en áður hefur þekkst í miðlun fundargerða á vef bæjarins m.a. með tengingu við hnit, smámyndir af pdf blaðsíðum, kort af öðrum málum í nærumhverfinu og tenging við skra.is og skipulagssjá Skipulagsstofnunar þegar við á.

Hafnarfjarðarbær er framsækið sveitarfélag á sviði stafrænnar þróunar og miðlunar upplýsinga og er samstarfið liður í að efla þá þróun enn frekar. Sprotafyrirtækið Planitor er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir skipulags- og byggingarmál á Íslandi.

„Við fögnum því að geta boðið upp á þessar nýjungar í þeim mikilvægu málaflokkum sem skipulags- og byggingamál eru. Það getur verið flókið að fylgjast með framvindu mála og því er öll sjálfvirkni af hinu góða og bætt miðlun upplýsinga. Markmið okkar er að styðja við nýsköpun og bjóða upp á stafrænar nýjungar í þjónustunni. Samstarfið við Planitor er gott og mikilvægt skref í þessari vegferð okkar“, segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

“Við hjá Planitor erum þakklát fyrir stuðninginn við nýsköpun á sviði skipulags- og byggingarmála sem Hafnarfjarðarbær sýnir í verki með þessum þjónustusamningi. Lausnir Planitor snúa að því að auka yfirsýn yfir þennan mikilvæga málaflokk og að auka gegnsæi og þjónustu við umsækjendur sveitarfélaga með sjálfvirkum og stafrænum lausnum”, segir Guðmundur Kristján Jónsson framkvæmdastjóri Planitor.

Ábendingagátt