Miðstöð öldrunarþjónustu

Fréttir

Hafinn er undirbúningur að byggingu nýs sextíu rýma hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði vilja tengja byggingu við Sólvang og nýta Sólvang að hluta sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara. 

Hafinn er undirbúningur að byggingu nýs sextíu rýma
hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum og eru hugmyndir bæjaryfirvalda í
Hafnarfirði á þá leið að tengja bygginguna við Sólvang og nýta Sólvang að hluta
sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu. Að auki er gert ráð
fyrir að þar verði tuttugu hjúkrunarrými til viðbótar fallist
velferðarráðuneyti á tillögur bæjaryfirvalda þar um.

Í maí 2010
var undirritaður samningur milli velferðarráðuneytis og Hafnarfjarðarbæjar um
byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í sveitarfélaginu.
Í samningnum er gert ráð fyrir sextíu rýma hjúkrunarheimili í stað núverandi
hjúkrunarheimilis að Sólvangi. Bygging hjúkrunarheimilisins hefur dregist en upphaflega
var áætlað að það yrði tilbúið haustið 2012. Í kjölfar hagkvæmniúttektar á
staðsetningu heimilis tók ný verkefnastjórn um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins
til starfa 2015. Samþykkt var sama ár að nýtt hjúkrunarheimili myndi rísa á Sólvangsreitnum.
Ákvörðunin er í samræmi við stefnumótun í málefnum eldri borgara í Hafnarfirði
þess efnis að Sólvangur verði miðstöð öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þar
er nú þegar fyrir hendi ýmis stoðþjónusta sem mikilvægt er að sé til staðar í
nærumhverfi nýs hjúkrunarheimilis.

Fleiri rými og breytt notkun – kostirnir eru
ótvíræðir

Hugmyndir
hafa verið uppi um að nýta Sólvangshúsið sem þjónustumiðstöð og þar verði m.a.
til húsa dagdvöl fyrir eldri borgara, sjúkraþjálfun, mötuneyti, félagsstarf og
fleira. Einnig hefur verið litið til þess að fjölga fyrirhuguðum rýmum úr
sextíu í áttatíu og nýta Sólvangshúsið m.a. fyrir þau tuttugu rými sem fengjust
til viðbótar.  Í dag eru fimmtíu og átta
rými á Sólvangi og myndi nýtt hjúkrunarheimili einungis bæta við tveimur nýjum
rýmum skv. núverandi áætlunum. Ljóst er að mikil þörf er fyrir fleiri
hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu og myndi þessi aukning koma til móts við þær
þarfir. Einnig hefur verið sýnt fram á að rekstur áttatíu rýma
hjúkrunarheimilis er mun hagkvæmari en rekstur á sextíu rýmum. Kostirnir eru
því ótvíræðir.

Skora á ráðuneyti að breyta afstöðu sinni

Í bréfi frá velferðarráðuneyti í lok nóvember 2015 kemur fram að ráðuneytið fallist ekki á
að farið verði í endurbætur á Sólvangshúsinu í samræmi við hugmyndir
bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa skorað á ráðuneytið
að endurskoða þessa afstöðu sína og samþykkja hvort tveggja breytingu á
núverandi húsnæði á Sólvangsreit og fjölgun hjúkrunarrýma úr sextíu í áttatíu.
Skrifleg áskorun, sem samþykkt var samhljóða og undirrituð af öllum sem sitja í
verkefnastjórn hjúkrunarheimilis, hefur verið send til heilbrigðisráðherra.

Ábendingagátt