Mikil lífsgæði að lifa og starfa í sama bæ

Fréttir

Guðrún Þorsteinsdóttir, mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar, er fæddur Gaflari en fluttist ung til Keflavíkur þar sem hún er búsett í dag. Stefnan er tekin á að flytja aftur til Hafnarfjarðar fyrr en síðar og fjölskyldan er meira að segja búin að finna sér hverfið sem hún vill búa í. Guðrún er viðmælandi vikunnar í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar. 

Guðrún Þorsteinsdóttir, mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar, er fæddur Gaflari en fluttist ung til Keflavíkur þar sem hún er búsett í dag. Stefnan er tekin á að flytja aftur til Hafnarfjarðar fyrr en síðar og fjölskyldan er meira að segja búin að finna sér hverfið sem hún vill búa í. Guðrún er viðmælandi vikunnar í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar. 

Hlusta á þáttinn

Eins og allir sem Guðrúnu þekkja þá er hún hörkutól og óhrædd við að takast á við erfið verkefni. Hún byrjaði að vinna 10 ára í útgerð föður síns, er mikill jafnréttissinni og barðist hart fyrir því að komast á sjóinn. Guðrún er menntuð leikskólakennari og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun. Tók þátt í að reka einkarekinn leikskóla um tíma í anda Hjallastefnunnar. Hún hefur víðtæka reynslu af mannauðsmálum m.a. hjá Reykjanesbæ, Isavia og núna hjá Hafnarfjarðarbæ. Eldskírnina í mannauðsmálum hlaut hún hjá Reykjanesbæ þar sem hún fór í gegnum nokkur efnahagsáföll með tilheyrandi áskorunum í atvinnumálum bæjarins. Svo tókst hún á við uppganginn hjá Isavia og gríðarlegri fjölgun starfsmanna. 

Hafnarfjarðarbær er heppinn að fá að njóta starfskrafta Guðrúnar hjá bænum og hennar reynslu. Í viðtalinu fer hún yfir verkefnin hjá bænum, vinnustaðinn Hafnarfjarðarbæ og starf mannauðsstjóra þar sem enginn dagur er eins. Hún finnur sterkt fyrir því hve Hafnfirðingar sækja í að starfa hjá bænum enda mikil lífsgæði að lifa og starfa í sama bæ.

Í frítímanum á golfið hug hennar þar sem hún fær góða hvíld frá erilsömu starfi og er dugleg að fylgjast með tvíburadætrum sínum spila fótbolta.

Viðtöl við áhugaverða einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict.

Ábendingagátt