Mikilvægar upplýsingar vegna óveðurs

Fréttir

Röskun verður á starfsemi og þjónustu vegna veðurs

Von er á afar slæmu veðri síðar í dag og hefur óvissustigi verið lýst yfir á landinu öllu. Mikilvægt er að allir íbúar og aðrir sem þurfa ekki að vera úti að nauðsynjalausu fari heim áður en veðrið skellur á og haldi sig heima. Reiknað er með að veðrið skelli á í síðasta lagi kl. 17 í dag og standi fram eftir nóttu. Mikil óvissa er en varðandi morgundaginn, hvernig veðrið verður og hvernig gengur að koma samgöngum á eftir óveðrið. Við hvetjum bæjarbúa til að sýna þolinmæði, njóta þess að vera heima og fylgjast vel með tilkynningum og fréttum. Slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir þakka sérstaklega því hversu vel gekk í síðasta óveðri, sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið þann 1. desember sl., hversu vel íbúar sveitarfélaganna allra og þar með  foreldrar og forráðamenn fóru eftir ráðleggingum og tilmælum.

Möguleg röskun á skólastarfi þriðjudaginn 8. desember

Veður gæti raskað skólastarfi í fyrramálið, stefnt er þó að þvi að halda grunnskólum opnum. Fylgist með tilkynningum: http://shs.is/

Börn verði sótt fyrir kl. 16:00

SHS, lögregla og almannavarnir mælast til þess að börn verði sótt í skóla og frístundastarf fyrir klukkan 16:00 í dag, þannig að þau séu trygg heima þegar veðrið skellur á. Jafnframt hafa skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd með fullorðnum, enda eru þau örugg þar. 

Íþróttamannvirki og sundlaugar loka kl. 16 

Öll íþróttamannvirki Hafnarfjarðarbæjar verða lokuð frá kl. 16 í dag. Allar æfingar íþróttafélaga falla niður. Bæjarskrifstofur Hafnarfjarðarbæjar loka kl. 15 í dag en þjónustuver verður opið til 16 líkt og aðra daga. Bókasafn og Hafnarborg loka kl. 15 og aðrar menningarstofnanir Hafnarfjarðarbæjar kl. 16.

Almenningssamgöngur

Leitast verður við að halda úti þjónustu Strætó bs. til kl. 18 í dag en röskun gæti orðið á þjónustunni fyrr. Ferðaþjónusta fatlaðra stefnir að því að koma öllum farþegum heim fyrir kl. 16.30. Mælst er til þess að farþegar sem eiga pantaðar ferðir eftir þann tíma að hafi samband við þjónustuver til að breyta ferðum eða afpanti í vefþjónustu akstursþjónustunnar.

Niðurföll

Fyrirsjáanlegt er að fárviðrinu fylgi hlýindi, sérstaklega þegar líður á nóttina og því er mælst til þess að hreinsað verði frá niðurföllum þar sem þess er kostur. Gott er að huga að þessu hið fyrsta meðan færi gefst.

Við hvetjum íbúa til að fylgjast með fréttum hér á heimasíðu bæjarins auk þess sem allar nýjustu upplýsingar verða settar á 
Facebook. 

Ábendingagátt