Mokstur í húsagötum stendur yfir

Fréttir

Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðarbæjar og verktakar á vegum sveitarfélagsins halda ótrauð áfram að moka og ryðja götur og stíga bæjarins. Mokstur og fínpússun á húsagötum mun halda áfram næstu daga. 16 tæki á vegum bæjarins og verktaka vinna að mokstri í öllum hverfum auk þess sem verið er að flytja burtu snjó á stöðum þar sem hann er farinn að þrengja að og skapa hættu. 

Þökkum þolinmæði og sýndan skilning

Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðarbæjar og
verktakar á vegum sveitarfélagsins halda ótrauð áfram að moka og ryðja götur og
stíga bæjarins. Um leið og snjókoma hætti í vikunni og svigrúm gafst til annars
en að halda stofnleiðum, Strætóleiðum og helstu bílaplönum opnum þá hófst hópurinn handa við
mokstur í húsagötum. Mokstur og fínpússun á húsagötum mun halda áfram næstu
daga. 16 tæki á vegum bæjarins og verktaka vinna að mokstri í öllum hverfum auk
þess sem verið er að flytja burtu snjó á stöðum þar sem hann er farinn að
þrengja að og skapa hættu. Þessi vinna er þegar hafin m.a. við Hringbraut,
Öldutún, Reykjavíkurveg og í fleiri þrengri götum.

180 km af
vegum og 200 km af stígum

Mokstur og
hreinsun allra gatna og stíga í Hafnarfirði Hafnarfjarðar er umfangsmikið og
stórt verkefni. Vegakerfið innan íbúabyggðar í Hafnarfirði eru 180 km, þar af
eru húsagötur um 80 km. Hafnfirskt stígakerfi telur 200 km, þar af eru um 92 km
af stígum mokaðir. Stígar í húsagötum eru ekki mokaðir. Vinna við
mokstur síðustu daga hefur reynst mikil áskorun því magnið er mikið og snjórinn
þungur, sérstaklega í húsagötum. Um leið og snjóa tekur á nýjan leik þá fara
allar vélar aftur að sinna forgangi 1 og 2 óháð því hvort búið sé að ryðja
húsagötur. Verkplanið í grunninn er ávallt að halda forgangsleiðum 1 opnum áður
en farið er í forgang 2. Forgangi 3, húsagötum, er ekki sinnt fyrr en leiðir í
forgangi 1 og 2 eru opnar og aksturshæfar.

Allar ábendingar í ábendingagátt

Hafnarfjarðarbær biðlar því til íbúa að skrá allar ábendingar um það sem betur má fara í snjómokstrinum í ábendingagátt bæjarins
og leggja þannig sitt að mörkum við að tryggja að engin gata, gönguleið eða
plan sem er umsjá og á áætlunum bæjarins, gleymist. Öllum ábendingum er
forgangsraðað og ráðist í verkið um leið og ráðrúm gefst. Við þökkum íbúum
kærlega fyrir þeirra framlag, þolinmæði og sýndan skilning.

Ítarlegri upplýsingar um snjómokstur og hálkuvarnir bæjarins

Ábendingagátt