Mönnun í starfsemi á neyðarstigi – virkjun ákvæðis

Fréttir

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að virkja ákvæði í lögum um almannavarnir til þess að tryggja að þjónusta sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu haldist órofin meðan á neyðarstigi stendur vegna Covid19. 

Mönnun í starfsemi sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins á
neyðarstigi
– virkjun ákvæðis í lögum um almannavarnir

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að
virkja ákvæði í lögum um almannavarnir til þess að tryggja að þjónusta
sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu haldist órofin meðan á neyðarstigi
stendur vegna COVID-19.  Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru; Reykjavík,
Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Starfsstaðir þessara
sveitarfélaga eru að takast á við umönnunarvanda vegna faraldursins bæði vegna
veikindafjarvista eða fjarvista starfsfólks sem er tímabundið í sóttkví.

Ljóst er að ákveðin
þjónusta innan sveitarfélaganna verður að haldast órofin og því
nauðsynlegt að manna stöður innan þessara þjónustueininga. Til að tryggja að
starfsemi þessi sé í stakk búin til að takast á við þá stöðu sem gæti verið
framundan á næstu dögum þarf að virkja notkun á
tímabundnu ákvæði í lögum um almannavarnir sem kom samþykkt var þann
30.mars sl. og fjallar um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila.

Lagaákvæðið er svohljóðandi:

Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í
þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er heimilt að fela
starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og að flytja starfsmenn
tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem
hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar
aðstæður. Þó er starfsmaður undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufari
hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans
og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum
störfum. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1.
janúar 2021.

Þetta þýðir að sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er
heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og flytja
starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva til að sinna þeim verkefnum er hafa
forgang á hættustundu.
Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum nema í þeim
tilfellum þar sem þeir taka að sér starf sem almennt eru greidd hærri laun
fyrir eða ef vinnuframlag er umfram hefðbundna vinnuskyldu. Þessi heimild er
eingöngu gild meðan neyðarstig almannavarna er í gildi.

Dæmi er fallið geta undir þetta lagaákvæði:

  • Í ljósi þess að íþróttamannvirki, sundlaugar og
    menningarstofnanir hafa lokað er hægt að nýta þann mannafla í forgangsverkefni
    t.d. á sviði velferðarþjónustu eða fræðslumála.
  • Hægt er að fela kennurum að kenna á öðrum tímum
    en vinnuskýrsla segir til um eða breyta kennslu í fjarkennslu. Eingöngu eru
    greiddar viðbótargreiðslur ef vinnuframlag eykst.
  • Ef dagdvöl aldraðra eða fatlaðra lokar er hægt
    að nýta þá starfsmenn til að veita heimaþjónustu innan
    velferðarþjónustunnar.

Mikilvægt er að stjórnendur gæti meðalhófs ef þeir ætla að
nýta sér þessa heimild og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur. Æskilegt
er að allar ákvarðanir um breytingar séu teknar í eins góðri samvinnu við
starfsmenn og hægt er. Einnig þarf að hafa í huga að starfsmaður er undanþeginn
framangreindri skyldu sé heilsufar hans, eða annars einstaklings sem hann ber
ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með
því að fela honum að gegna slíkum störfum.

Ábendingagátt