Mosinn í 3. sæti í hönnunarkeppninni Stíl

Fréttir

Lið félagsmiðstöðvarinnar Mosans í Hraunvallaskóla varð í 3. sæti í hönnunarkeppninni Stíl á vegum Samfés. Alls tóku 30 lið þátt og árangurinn frábær.

Hraunvallaskóli í 3. sæti Stíl

Lið félagsmiðstöðvarinnar Mosans í Hraunvallaskóla varð í 3. sæti í hönnunarkeppninni Stíl á vegum Samfés laugardaginn 1. mars. Iva Matanovic og Sonia Laura Krasko skipuðu liðið. Báðar eru þær nemendur í 10. bekk skólans. Liðið sinnti hönnuninni í vali í skólanum þar sem þær hönnuðu, saumuðu og unnu að ferilmöppunni sjálfri.

Félagsmiðstöðin Garðalundur fór með sigur að hólmi í ár en keppnin hefur veið haldin allt frá aldamótaárinu 2000 í samstarfi við félagsmiðstöðvar í Kópavogi, eða Félkó. „Það sem gerir Stíl að svo einstökum viðburði er það nána samstarf sem víða hefur myndast milli félagsmiðstöðva og grunnskóla. Margir grunnskólar bjóða upp á valáfanga þar sem nemendur vinna að hönnun og öðru tengdu keppninni í samvinnu við félagsmiðstöðina. Þetta samstarf gefur ungmennum dýrmæt tækifæri til að þróa hæfileika sína og vinna saman í skapandi umhverfi,“ segir á vef Samfés.

Þriðju af þrjátíu liðum

Þriðja sætið er frábær árangur en 30 lið tóku þátt og skiluðu inn glæsilegum vinnumöppum með hugmyndavinnu og sköpunarferli. Þemað var „Sjóræningjar Karabískahafsins“  og keppendur sýndu ótrúlegan frumleika í hönnun, förðun og hárgreiðslu!

Stíll er einstakur vettvangur þar sem skólar og félagsmiðstöðvar vinna saman að því að efla sköpunargáfu og hæfileika ungs fólks. Þemað var fengið úr myndinni Pirates of the Caribbean: Dead man’s chest.

Te, pleður og korselett

Iva og Sonia notuðu lak úr bómullarefni í skyrtuna og lituðu með te til þess að fá rétta litinn ásamt því að nota gamla blúndu úr gardínum. Svo keyptu þær pleður og blátt bómullarefni sem notað var í pilsið og korselettið. Yfir öxlina nýttu þær gamalt fiskinet sem vísar til uppruna hugmyndarinnar.

Iva og Sonia. Innilega til hamingju með frábæran árangur.

Ábendingagátt