Mundu eftir frístundastyrknum!

Fréttir

Þetta þarftu að vita um frístundastyrki Hafnarfjarðarbæjar. Frístundastyrkurinn er hugsaður fyrir öll börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára sem skráð eru í virkt íþrótta- og tómstundastarf. Um er að ræða mánaðarlegan styrk til lækkunar á þátttökugjöldum.

Frístundastyrkur Hafnarfjarðarbæjar er hugsaður fyrir öll börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára sem skráð eru í virkt íþrótta- og tómstundastarf. Um er að ræða mánaðarlegan styrk til lækkunar á þátttökugjöldum. Við rafræna skráningu hjá íþrótta- og tómstundafélögum, innan eða utan Hafnarfjarðar, geta foreldrar og forráðamenn valið að nýta styrkinn og draga hann frá þátttökugjöldum.

Þetta þarft þú að vita um frístundastyrkina:

  • Fyrir 6-18 ára börn með lögheimili í Hafnarfirði (miðað við fæðingarár)
  • Heimilt er að nýta styrkinn í tónlistarnám
  • Hægt er að nota frístundastyrkinn til að greiða niður líkamsræktarkort eða sambærilegt aðgangskort sem tengist íþróttum og hreyfingu fyrir 16 ára og eldri. Kortin verða að gilda í þrjá mánuði eða lengur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um fræðslu til iðkenda og utanumhald. Heimildin gildir frá áramótum þess árs sem börnin verða 16 ára
  • Niðurgreiðslur ná eingöngu til félaga og viðurkenndra aðila sem eru með skipulagða kennslu/þjálfun í að minnsta kosti 10 vikur í senn og að lágmarki eina æfingu í viku
  • Niðurgreiðsla bæjarins er að hámarki 4.500.- kr. á mánuði á hvern iðkanda
  • Frístundastyrkurinn verður aldrei hærri en 54.000.- kr. á ári
  • Greiðslukvittanir sem berast fyrir 15. dag hvers mánaðar og uppfylla viðmið í reglum verða greiddar um 20. dag næsta mánaðar
  • Ekki er tekið á móti kvittunum eldri en tveggja mánaða frá upphafsdegi námskeiðs
  • Ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra styrk frá félögum þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrknum til félags

Nánari upplýsingar um frístundastyrk Hafnarfjarðarbæjar
Reglur um frístundastyrk

Virkni í íþrótta- og tómstundastarfi er öllum börnum mikilvæg

Markmið frístundastyrkja er að efla íþróttastarf og annað forvarnarstarf og gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í skipulögðu starfi óháð efnahag fjölskyldna. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brotthvarfi í eldri aldurshópum iðkenda. Rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt er að halda börnum og ungmennum virkum í íþrótta- og frístundastarfi og tryggja jafnt aðgengi barna og unglinga að slíku starfi.

Virkjum börn okkar og ungmenni!

Ábendingagátt