Músík í mars og Mæja jarðarber og á bókasafninu

Fréttir

Fjöldi tónlistarviðburða verða á bókasafninu í mars. Vert er að taka eftirmiðdag miðvikudaga frá og mæta. Leikskólabörnin fá svo að njóta tónlistarinnar þegar Mæja jarðaber heldur 12 tónleika á bókasafninu í mánuðinum. Búist við því að hátt í 60 leikskólabörn verða á hverjum tónlistarviðburði.

Hátt í 60 leikskólabörn verða á hverjum tónlistarviðburði Mæju jarðarber á Bókasafni Hafnarfjarðar nú í mars. Mæja jarðaber heldur 12 tónleika á bókasafninu í mánuðinum og er búist við því að allir leikskólar bæjarins mæti með börnin sín. Sungin verða lög úr Ávaxtakörfunni auk þess sem Mæja spjallar um vináttuna. Gera má ráð fyrir að stundin taki í heildina um klukkustund. Dagsetningarnar sem um ræðir eru 11., 12.,13, 18., 19. og 20. mars næstkomandi.

Mæja jarðarber hélt einnig tónleika á bókasafninu á Safnanótt og sló í gegn meðal bæði barna og fullorðinna. Tónleikarnir tólf núna dreifast um mánuðinn og eru milli klukkan 9:20-10.45. Fastagestir bókasafnsins á hverjum tíma geta þá notið þeirra með börnunum.

 

Músík á miðvikudögum

Miðvikudagar eru tónlistardagar á bókasafninu. Dúettinn Ju/Ka sem verður með tónleika þann 12. mars frá klukkan 16.30. Beatričė Juškaitė og Maja Källström skipa dúettinn og eru þær búsettar í Osló. Þá þreytir Helga Nína frumraun sína með blús-slegnu, íslensku poppi frá klukkan 16:30 miðvikudaginn 13. mars.

Natalía Jónsdóttir leikur uppáhalds tónverkin sín eftir tónskáldin Chopin, Bach og Grieg miðvikudaginn 20. mars kl. 16:30. Natalía ætlar að sýna fram á fjölbreyttar tilfinningar sem píanóið getur kallað og segja frá 10 ára tónlistarnámi sínu. Hún stefnir á að sýna að við öll getum elskað píanóið. Og viðburðirnir eru fleiri.

Tónlistin á heima á bókasafninu

Já, miðvikudagar eru músíkdagar á Bókasafni Hafnarfjarðar og þar á tónlistin líka heima. Bókasafnið er með tónlistadeild, eitt það fyrsta og stærsta innan bókasafna landsins. Þar hægt að leigja út gítar, bassa, trommusett, önnur slagverk og úkúlele.  Tónlistarunnendur geta einnig leigt sér plötur, geisladiska, plötu- og geislaspilara.

Sjá má allir viðburðir á bókasafninu hér

Opnunartími bókasafnsins:

  • Mán–fimmtudaga 09–19
  • Föstudaga 09–17
  • Laugardaga12–16
Ábendingagátt